148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

göngudeild SÁÁ á Akureyri.

[14:02]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Í fyrsta lagi er því til að svara að sú starfsemi sem er innt af hendi hjá SÁÁ er gríðarlega mikilvægt og stórt samfélagslegt verkefni sem hefur mikið verið rætt, ekki síst þessa dagana þegar við erum að tala um of- og misnotkun á lyfjum.

Hvað varðar akkúrat málið sem hv. þingmaður spyr um er staðan sú samkvæmt upplýsingum mínum úr ráðuneytinu að ekki hefur tekist að ná samningi um þessa þjónustu afmarkaða, of langt sé á milli aðila og því sé göngudeildin í sjálfu sér rekin fyrir söfnunarfé.

Hins vegar er það svo, eins og hv. þingmaður bendir á, að það er ákvörðun SÁÁ hvernig fjármagni er forgangsraðað. Það er eðli málsins samkvæmt ákvörðun sem samtökin geta tekið miðað við stöðuna eins og hún er. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að horfa til þeirra sjónarmiða sem hv. þingmaður nefnir, þ.e. að við séum með landsbyggðarsjónarmiðin undir þegar við tölum um samninga um þjónustu sem ríkið kaupir í raun af félagasamtökum eða einkaaðilum eftir atvikum, að við höfum þau sjónarmið til hliðsjónar þegar teknar eru ákvarðanir um samsetningu þjónustunnar. Og ekki síður þurfum við í ríkari mæli að horfa til gæða og árangurs þeirrar þjónustu sem við festum kaup á fyrir almannafé.