148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

göngudeild SÁÁ á Akureyri.

[14:06]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé bara þörf ábending. Ég skynja að hv. þingmaður er að koma hingað með ákveðið efnislegt nesti, ef svo má að orði komast, innan úr fjárlaganefnd. Því að menn hafa þar af þessu áhyggjur í ýmsum efnum. Það er svo að þegar opinber þjónusta er samsett þannig að hluti hennar er beinlínis á okkar forræði en annar hluti þannig að við kaupum hana af öðrum aðilum þá þurfum við að hafa til þess sjálfstraust að skilgreina með skýrum hætti nákvæmlega hvaða þjónustu við viljum kaupa, hvert á að vera inntak hennar, hvernig hún á að dreifast um landið og hvaða gæði eða gæðastaðla hún þarf að uppfylla. Síðan þurfum við líka að geta brugðið sjónarhorni einhvers konar árangursmats á þá þjónustu sem er til umræðu hverju sinni.