148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

birting dagskrár þingfunda.

[14:07]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Mig langaði bara stuttlega til að koma upp og gagnrýna það, ég hef gert það áður og mun halda áfram að gera það, hve seint dagskrá kemur til okkar þingmanna. Þegar maður hefur smátíma yfir daginn til að undirbúa sig fyrir næsta dag getur maður ekkert gert af því að ég veit ekkert hvaða mál verða á dagskrá á morgun. Ég átta mig ekki á því hvers vegna ekki er hægt að verða við þessu.

Það er mikil vinna sem við vinnum hérna og það er mikilvægt að vera undirbúin fyrir umræður. Mig langar til að geta tekið þátt í umræðum og ég get ekki unnið á kvöldin t.d., ég er bara búin á því á kvöldin eftir að ég er búin að svæfa krakka og fleira. Mig langar bara að hafa tíma til að undirbúa mig svo að ég geti tekið þátt á upplýstan hátt í þeim umræðum sem eru í gangi á þinginu. Mér finnst það bara vera „basic“ virðing við okkur þingmenn að geta haft dagskrána tilbúna fyrr. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)