148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

birting dagskrár þingfunda.

[14:10]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Gagnrýni Halldóru Mogensen er að sjálfsögð réttmæt, það er rétt sem forseti segir, að dagskráin eins og hún er í dag lá fyrir á föstudag. Það er alveg til í dæminu að slíkt gerist en síðan eru líka tilfelli eins og í dag þar sem ekki lá ekki fyrir á fundi forsætisnefndar sem ég sat um hádegisbilið hvaða mál verða á morgun. Eigum við ekki að gera þetta betur? Voru það ekki einkunnarorð hv. þingmanns og forseta nú, Steingríms J. Sigfússonar, í kosningabaráttunni, gerum þetta betur? Nei? Var það ekki á réttri leið hjá Sjálfstæðisflokknum en nú er það: Gerum þetta betur. [Hlátur í þingsal.] Þetta er allt í rétta átt. Gerum þetta betur, fáum dagskrána fyrr.

Varðandi það sem hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir, sem ég ber mikla virðingu fyrir, nefnir er grundvöllurinn fyrir því að við getum sett málin á dagskrá fyrir fram ekki að við afsölum okkur réttinum til að tala í einhverjum málum. Nei, við vitum öll að þessi tíma- og málþófshefð er til staðar vegna þess að menn eru að keppa um dagskrárvaldið. Við þurfum að tala um dagskrána í heildstæðu samhengi, þá getum við leyst það, en við getum aftur á móti leyst dagskrána og verið betur undirbúin með því að fá hana fyrr fram. Er það ekki bara eðlilegt? (Gripið fram í: Heyr, heyr.)