148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

félagsleg undirboð og svik á vinnumarkaði.

[14:30]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Alþjóðavæðingin hefur sína kosti og galla. Samkeppni fyrirtækja hefur líklegast aldrei verið meiri og hefur það oftast verið talið til góðs fyrir neytendur sem hafa þá aðgang að ódýrari vöru. Skuggahliðin er samt sú að fyrirtæki leitast eftir að lágmarka framleiðslukostnað og er það oft gert á kostnað fólks sem sökum neyðar tekur að sér vinnu fyrir lægri laun við verri aðstæður.

Það hefur færst í aukana að fyrirtæki noti starfsmannaleigur og útsenda starfsmenn til að fá til sín ódýrara vinnuafl en ófullnægjandi eftirlit og lítið af skráðum gögnum um útsenda starfsmenn og möguleg félagsleg undirboð hafa falið vandamálið. Þetta þarf að laga.

Á síðasta ári lagði þáverandi félags- og jafnréttismálaráðherra fram frumvarp á Alþingi sem fjallaði um réttindi og skyldur starfsmannaleigna sem starfa hér á landi og átti að setja reglur um keðjuábyrgð fyrirtækja sem ráða slíka starfsmenn. Með frumvarpinu átti að mæta og koma í veg fyrir félagsleg undirboð og tengda brotastarfsemi sem hefur farið vaxandi á íslenskum vinnumarkaði. Það er skylda okkar að tryggja að erlendir verkamenn njóti sömu réttinda og við sem höfum ævilanga reynslu af íslenskum vinnumarkaði. Við getum ekki búið við að vera með tvöfalt kerfi þar sem sumir starfsmenn í samfélaginu eru með betri réttindavernd en aðrir.

Með því frumvarpi sem lagt var fram á síðasta ári hefði verið stigið skref í áttina að því að laga þetta ástand. Það olli mér því miklum vonbrigðum þegar í ljós kom að við vinnslu frumvarpsins hafði algjörlega verið hunsað að hafa samráð við Persónuvernd þrátt fyrir að í því væri að finna víðtækar heimildir til meðferðar og vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga. Þrátt fyrir að hér sé um að ræða alvarlega réttindabaráttu fyrir hóp einstaklinga sem á sér oft ekki málsvara er nauðsynlegt að á sama tíma heimilum við ekki persónunjósnir á hendur þeim.

Nú liggur fyrir að þetta frumvarp skuli lagt fram aftur. Ég fagna því en vona um leið að þá verði búið að taka tillit til sjónarmiða Persónuverndar þannig að ekki sé gengið óþarflega langt á friðhelgi einkalífs sem erlent verkafólk, alveg eins og Íslendingar, á sjálfsagðan rétt á að njóta. Við verðum að geta tryggt öryggi erlends verkafólks á vinnumarkaði en án þess að ganga á mannréttindi þess.