148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

félagsleg undirboð og svik á vinnumarkaði.

[14:50]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir að hefja mikilvæga umræðu um félagsleg undirboð á vinnumarkaði sem mætti segja að væri skuggahliðin á vinnumarkaði okkar um þessar mundir.

Ef ég ætti að koma með nokkrar tillögur eftir að hafa litið í gegnum regluverk Vinnumálaeftirlitsins myndi ég alla vega leggja til að reglubundnar heimsóknir Vinnueftirlitsins yrðu efldar og að ítrekað og oftar yrði farið í óvæntar heimsóknir til vinnustaða til að kanna hvort allt sé með felldu hvað varðar a.m.k. aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Mér finnst því tilefni til að athuga hvort 82. gr. þeirri sömu laga sæti endurskoðun.

Annað sem mig langar að taka til skoðunar, þar sem við erum að tala um félagsleg undirboð, er að mig langar líka að leggja það að jöfnu við það hvernig almennt er komið fram við erlenda starfsmenn á vinnustöðum og hvernig þeir geta verið beittir alvarlegu ofbeldi á vinnustað sínum án þess að vita hvert þeir eigi að leita. Þess vegna finnst mér tilefni til að endurskoða 38. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum og athuga hvort tilefni sé til þess að breyta e-lið þeirrar greinar um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Eins og við sáum verða konur af erlendum uppruna fyrir mjög alvarlegu ofbeldi á vinnustöðum sínum og virðast ekki vita hvert þær eiga að leita.

Herra forseti. Í lokin langar mig að minnast á skuggahliðina af skuggahliðinni á íslensku atvinnulífi og það er mansal, vinnumansal. Ég minni á að ekki er í gildi aðgerðaáætlun gegn mansali. Ég hvet hæstv. félagsmálaráðherra til að taka í samstarfi við dómsmálaráðherra orðalag 227. gr. almennra hegningarlaga um vinnumansal til almennrar skoðunar og endurskoðunar þar sem það þykir of almennt og ekki vinna að markmiðum sínum. Eins þarf að skoða betur hvaða stofnanir bera ábyrgð á því að fylgja þessu eftir.