148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[15:25]
Horfa

Flm. (Anna Kolbrún Árnadóttir) (M):

Forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um óháða, faglega staðarvalsgreiningu fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús. Ásamt mér eru flutningsmenn allur þingflokkur Miðflokksins, eða Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson og Þorsteinn Sæmundsson.

Þingsályktunartillagan hljóðar upp á það að fela heilbrigðisráðherra að framkvæma óháða, faglega staðarvalsgreiningu fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús. Ráðherra leiti ráðgjafar hjá erlendum aðilum sem og innlendum fagaðilum sem verði falið að gera úttekt á mögulegri staðsetningu, m.a. með tilliti til fjárhags-, gæða-, samgöngu-, umferðar- og öryggismála. Niðurstöður greiningarinnar verði birtar með aðgengilegum hætti. Ráðherra flytji Alþingi skýrslu um niðurstöðurnar eigi síðar en í maí 2018.

Á árunum 2001–2008 skrifuðu íslenskir og erlendir sérfræðingar fjölmargar álitsgerðir og í flestöllum var komist að þeirri niðurstöðu að best væri að byggja nýtt þjóðarsjúkrahús frá grunni á nýjum stað. Sérfræðingarnir sem sömdu álitin töldu hins vegar að ef ekki væri hægt að byggja nýtt sjúkrahús frá grunni á nýjum stað væri best að byggja við sjúkrahúsið í Fossvogi eða gamla Landspítalann við Hringbraut. Það var niðurstaða að ef ekki væri hægt eða vilji til að reisa þjóðarsjúkrahúsið á nýjum stað þá væri Hringbraut eða Fossvogur kostur. Niðurstaðan, að byggja við Landspítalann við Hringbraut, var byggð á aðalskipulagi Reykjavíkur sem er í gildi frá árinu 2001–2024 en allar forsendur skipulagsins eru brostnar, ekkert þeirra umferðar- og skipulagsúrræða sem þar er reiknað með er í gildi í núna. Núverandi staðarval virðist byggist því á úreltu skipulagi.

Í skýrslu sem unnin var af Háskólanum á Bifröst og Rannsóknarstofnun atvinnulífsins fyrir Samtök atvinnulífsins í nóvember 2015 kom fram að Hringbraut hentaði ekki sem framtíðarstaðsetning og tekið var til að fjárhagslegur ávinningur annarrar staðsetningar væri töluverður.

Í úttekt samtakanna um betri spítala á betri stað, sem gerð var í júní 2015, sagði að kostnaður við byggingu og reksturs nýs þjóðarsjúkrahúss væri mismunandi eftir staðsetningum. Samtökin báru saman þrjá staði. Í fyrsta lagi viðbyggingar við gamlar byggingar á Hringbraut, viðbyggingu við spítalann í Fossvogi og byggingu nýs spítala frá grunni á öðrum stað, sem væri nýr staður nær búsetumiðju höfuðborgarsvæðisins og við meginumferðaræðar. KPMG fór yfir útreikningana, skoðaði forsendur og staðfesti útreikningana miðað við þær gefnu forsendur. Samanburðurinn sýndi að hagkvæmara væri að byggja í Fossvogi en við Hringbraut og enn hagkvæmara væri að reisa nýtt þjóðarsjúkrahús frá grunni.

Fagleg staðarvalsgreining snýr sem sagt einnig að þáttum eins og leiðum sjúkrabíla og þyrlna. Það gefur augaleið að kostnaðurinn er lægri eftir því sem styttra er á þjóðarsjúkrahúsið og í því sambandi þarf að skoða byggðaþróun og íbúaþróun og það til lengri tíma. Það þarf að athuga hvernig stofnbrautir snerta á byggingunum og hvernig fólk ferðast á milli staða.

Meginmarkmið þessarar tillögu er að gerð verði óháð fagleg staðarvalsgreining. Gera þarf faglega staðarvalsgreiningu til þess að sjá hvar hagkvæmast og best er að byggja. Til þess þarf óháða fagmenn, svo sem skipulagsfræðinga, sjúkraflutningamenn, þyrluflugmenn, verkfræðinga, viðskiptafræðinga, umferðarfræðinga og heilbrigðisstarfsfólk. Fagfólki yrði falið að gera úttekt á mögulegum staðsetningum út frá fjárhags-, gæða- og samgöngu-, umferðar- og öryggismálum. Niðurstöður þyrfti að birta á aðgengilegan hátt.

Ég vonast að um tillöguna geti skapast víðtæk samstaða í þinginu sem og í samfélaginu öllu. Það er nauðsynlegt að taka skynsamlegar ákvarðanir byggðar á nýjum upplýsingum og í takt við þá þróun sem hefur átt sér stað t.d. í skipulagsmálum. Einnig veitir það aukið öryggi sem og gæði og að endingu skýra framtíðarsýn um betri spítala á besta stað.

Ég óska eftir því að frumvarpið gangi til hæstv. velferðarnefndar að umræðu lokinni.