148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[15:41]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kvaddi mér hljóðs vegna þess að ég verð að játa að ég stend pínulítið á gati með afstöðu hv. þingmanns eftir ræðu hans. Það má vel vera að það sé mín sök en mig langar að eiga orðastað við hv. þingmann til að fá þetta alveg á hreint.

Ég gat ekki skilið hv. þm. Björn Leví Gunnarsson öðruvísi en svo að það mætti í raun engan tíma missa, að vegna aðstæðna sem þingmaður rakti ágætlega varðandi síðustu ár og áratugi mætti í raun engan tíma missa með að halda áfram uppbyggingu heilbrigðiskerfisins. Ég hlustaði á hv. flutningsmann Önnu Kolbrúnu Árnadóttur ræða áðan um einhvers konar frestun á framkvæmdum, 7–8 mánuði minnir mig að hv. þingmaður hafi nefnt. Ég skil ekki enn þá alveg hver raunverulegi kjarninn er í þessari tillögu til þingsályktunar hvað varðar þá uppbyggingu sem þegar er hafin við Hringbraut.

Þess vegna skil ég ekki afstöðu hv. þingmanns þegar hann segir að hann og þingflokkur Pírata styðji þingsályktunartillöguna heils hugar. Mér fannst hv. þingmaður vera að tala um að í raun þyrfti að fara að skoða áframhaldið sem væri þá jafnvel næsta sjúkrahús þar á eftir, sem ég held að sé hárrétt hjá hv. þingmanni og er honum algerlega sammála um. En óttast hv. þingmaður ekki, miðað við það sem kom fram í orðum hv. flutningsmanns og kemur reyndar fram í greinargerðinni, varðandi uppbyggingu við Hringbraut að samþykkt þessarar þingsályktunartillögu muni tefja þær nauðsynlegu framkvæmdir sem nú eru hafnar?