148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[15:45]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður segist ekki treysta sér til að giska á hvað hv. flutningsmenn meini með tillögu sinni. Ég er alveg sammála honum um það að maður á ekki að reyna að giska á hvað annað fólk ætlar sér. Þess vegna er ágætt að hlusta á flutningsmenn sjálfa og jafnvel lesa tillöguna og greinargerðina sem henni fylgir. Þar segir, og er vísað í fjölmargar álitsgerðir þar sem komið er að því að best væri að byggja nýtt þjóðarsjúkrahús frá grunni á nýjum stað, með leyfi forseta:

„Niðurstaðan, að byggja við Landspítalann við Hringbraut, var byggð á aðalskipulagi Reykjavíkur 2001–2024 en allar forsendur skipulagsins eru brostnar, ekkert þeirra umferðar- og skipulagsúrræða sem þar er reiknað með er í gildi í núna. Núverandi staðarval virðist því byggjast á úreltu skipulagi.“

Svo segir síðar í greinargerðinni að enn hagkvæmara væri að reisa nýtt þjóðarsjúkrahús frá grunni á nýjum stað og er þar vísað í samanburð sem komið er inn á í tillögunni.

Þess vegna skil ég ekki að hv. þingmaður þurfi að giska á hver hugur flutningsmanna tillögunnar er. Ég hef setið með hv. þingmanni í þingsal og hlustað á marga af hv. flutningsmönnum, það ágæta fólk sem stendur að tillögunni. Það hefur ekki legið á afstöðu sinni til uppbyggingar við Hringbraut. Ég skynja það ekki öðruvísi, annars hef ég misskilið mikið og vona þá að hv. flutningsmenn sem ég veit að eru á mælendaskrá leiðrétti mig, en einlægur vilji sé til þess að uppbyggingin fari ekki fram þar.

Ég á því erfitt með að skilja hv. þingmann. Hann vill núverandi uppbyggingu á Hringbraut en styður samt þessa tillögu. Ég fæ það bara ekki til að koma heim og saman. Eitt er að gera úttekt á næsta sjúkrahúsi, sem væri þá sértillaga, en að styðja þessa tillögu með það að augnamiði (Forseti hringir.) að vilja ekki tefja framkvæmdir, sem ég þykist vita að tillagan mun einmitt gera, fæ ég ekki til að koma heim og saman.