148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[15:50]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Háæruverðugur forseti. Það mál sem við ræðum hér er gríðarlega brýnt og í raun óskiljanlegt að ekki skuli hafa verið ráðist í þessa vinnu miklu fyrr. En það er mjög margt óskiljanlegt í þessu mikla hagsmunamáli þjóðarinnar. Á ýmsan hátt er það til marks um það sem kalla mætti kerfisfirringu, algera firringu kerfisins gagnvart staðreyndum. Þegar menn eru komnir út á einhverja braut geta þeir bara ekki fengist til að endurskoða fyrri áform.

Þetta mál, sem var nú furðulegt fyrir, gerist sífellt undarlegra, ekki hvað síst með yfirlýsingum nokkurra hv. þingmanna hér í dag, og byrjaði reyndar í fyrirspurnatíma ráðherra með hreint dæmalausum svörum hæstv. samgönguráðherra, meints formanns Framsóknarflokksins, sem hélt því fram að þetta væri nú ekkert svo stórt mál vegna þess að það þyrfti hvort eð er að byrja að byggja næsta spítala eftir svona 20 ár. Svo heyri ég aðra þingmenn endurtaka þetta hér. Þetta er víst nýja línan.

Þegar við vorum að tala um að það þyrfti nýjan spítala, þá vorum við að meina næsta spítala. Gera hv. þingmenn sér ekki grein fyrir að ef þetta yrði raunin, ef byggja þyrfti nýjan Landspítala, nýtt þjóðarsjúkrahús, eftir 20–25 ár, þá eru þar með allar forsendur fyrir þessari framkvæmd farnar? Því að þessi framkvæmd, arðsemismat og allar forsendur, byggir á því að þetta eigi að vera þjóðarsjúkrahúsið um fyrirsjáanlega framtíð, um áratugi, jafnvel í 100 ár.

Ef menn ætla svo núna að kúvenda algerlega og segja: Svo bara byrjum við að byggja næsta spítala strax og við erum búin með þennan, þá er búið að rústa síðustu forsendunum sem eftir voru fyrir Hringbrautarverkefninu. Þær voru margar farnar, flestar farnar fyrir. Umferðarforsendur? Löngu farnar. Hætt hefur verið við fjölmörg göng, mislæg gatnamót, ýmislegt sem átti að verða til þess að tengja þennan spítala við restina af borginni.

Það sem var nógu erfitt ef ráðist hefði verið í allar þær framkvæmdir er ómögulegt án þeirra. Fjárhagslegar forsendur voru að mestu leyti foknar út í veður og vind. Ein forsenda var sérstaklega merkileg, að byggja þyrfti Landspítalann á þessum stað til að bjarga gamla miðbænum í Reykjavík. Það var á þeim tíma þegar erfiðlega gekk að leigja atvinnuhúsnæði í miðbænum og menn töluðu á þeim nótum að gamli miðbærinn í Reykjavík væri að grotna niður. Nýr Landspítali og uppbygging við Hringbraut átti að vera einhvers konar björgunaraðgerð fyrir gamla bæinn, svo að menn fengjust kannski til að framkvæma eitthvað þar. Hver er staðan í miðbæ Reykjavíkur núna? Þenslan á fasteignamarkaði er hvergi meiri á Íslandi. Og raunar orðin stórkostlegt vandamál. Það þýðir þá náttúrlega líka að forsendurnar varðandi húsakostinn sem er þarna fyrir eru gerbreyttar. Við núverandi aðstæður væri hægt að selja þetta húsnæði fyrir tugi milljarða og raunar byggingarrétt líka, enda hafa eftirspurn og verð þróast með þeim hætti að hægt er að fjármagna nýtt sjúkrahús að verulegu leyti með því að selja eldri byggingar, sem margar hverjar þarf að sjálfsögðu að taka verulega í gegn.

Og talandi um það, fyrst við erum að rekja forsendurnar og hvernig þær hafa breyst: Mörg húsanna við Hringbraut — og líklega var það meginforsendan, að minnsta kosti um tíma, að nýta þyrfti húsin sem fyrir voru — eru í því standi að annaðhvort þarf að strípa þau alveg niður, svo að ekkert standi eftir nema steinsteypan, eða rífa þau. Sum húsanna eru í þeirri stöðu að það þarf að rífa þau og væntanlega þarf þá að byggja ný.

Í forsendunum fyrir staðarvalinu var gert ráð fyrir að þetta húsnæði allt saman myndi nýtast áfram. Hvað hefur komið í ljós í millitíðinni? Sagðar hafa verið fréttir af miklum myglu- og rakaskemmdum í húsum víða um bæ og menn hafa í mörgum tilvikum gripið til mjög róttækra aðgerða. Ég nefni sem dæmi hús Íslandsbanka við Kirkjusand, gríðarlega stórt hús, sem var yfirgefið og stendur nú tómt því að það fundust raka- og mygluskemmdir á einni hæð hússins. Það sama má segja um Kársnesskóla í Kópavogi, heilan grunnskóla sem verður nú rifinn, að mér skilst, vegna þess að þar fundust raka- og mygluskemmdir. Fræg er sagan um Orkuveituhúsið sem var nú eitt af dýrustu húsum landsins þegar það var byggt ekki alls fyrir löngu. Nú er talað um að hugsanlega þurfi að rífa það, að minnsta kosti að hluta.

Ég get haldið áfram að telja upp hús. Nú síðast heyrðum við af Tryggingastofnun, sem stendur víst til að yfirgefa, ég held að verið sé að yfirgefa hana þessa dagana. En merkilegast af öllu, herra forseti, ég veit að virðulegur forseti mun hafa húmor fyrir þessu: Velferðarráðuneytið, sem er að taka ákvarðanir um framtíð sjúklinga á Landspítalanum, hefur verið yfirgefið, stendur tómt. Hvers vegna? Það komu upp rakaskemmdir í velferðarráðuneytinu. Hugsanleg mygla. Starfsmennirnir og ráðherrann gerðu kröfu um að þeir fengju bráðabirgðahúsnæði, forðuðu sér þangað og eru þar enn. En sú húsaþyrping sem er frægust af öllum húsum á Íslandi, fyrir mygluskemmdir, rakaskemmdir, maura og hvers konar óáran sem herjað getur á hús, er skilgreind sem framtíðarhúsnæði Landspítalans.

Og ekki bara það heldur var það meginforsendan fyrir því að byggja þyrfti spítalann við Hringbraut að hægt væri að nýta allt það húsnæði sem búið væri að byggja á undanförnum áratugum. Þetta stórskemmda húsasafn átti að vera forsenda þess að byggja upp við Hringbrautina meðan menn eru að rífa heilu stórbyggingarnar annars staðar ef þar uppgötvast dálítil mygla.

Það má blasa við hverjum sem vill skoða staðreyndir þessa máls að þetta er allt saman það sem útlendingar kalla „crazy business“. Það gengur ekkert upp í röksemdafærslu þeirra sem tala gegn því að leggja aftur mat á staðsetningu byggingar nýs þjóðarsjúkrahúss. Hvað gera menn þá? Menn festast í einhverjum frösum og jafnvel hreinum ósannindum. Helsta haldreipi hæstv. heilbrigðisráðherra, og mér heyrist jafnvel nokkurra hv. þingmanna Framsóknarflokksins, er að samþykkt hafi verið á þinginu þingsályktunartillaga um að byggja skyldi nýjan spítala við Hringbraut. Við eigum þá að leggja þann skilning í þetta að þó að í ljós hafi komið í millitíðinni að þetta sé algerlega vonlaus framkvæmd hafi þingið verið búið að samþykkja að byggja ætti nýjan spítala við Hringbraut og það bara verði að vera þannig.

En hvað var samþykkt hér á þinginu? Það var aldeilis ekki að nýr Landspítali skyldi byggður við Hringbraut. Þvert á móti. Það var nefnilega reynt að fá samþykkta tillögu um að byggður skyldi nýr Landspítali við Hringbraut. Þetta var gert í lok þings og reynt að knýja þessa tillögu í gegn með málfþófi, með hótunum um að þingið fengi ekki að fara heim ef ekki yrði gefið eftir í þessu máli. Þetta var tillaga frá þingmanni minni hlutans. Hvernig brugðumst við við? Jú, við, að minnsta kosti þingmenn Framsóknarflokksins sem þá var, sögðum: Nei, við getum ekki með nokkru móti fallist á tillögu um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut vegna þess að það er óskynsamlegt á svo margan hátt. Jafnvel þó að menn ætli að tala hér fram á sumar verður þetta ekki samþykkt.

Niðurstaðan varð málamiðlun, tillagan var dregin til baka. Eða réttara sagt breytt þannig að ekki stóð eitt orð eftir af gömlu tillögunni og í staðinn var samþykkt tillaga um nauðsynlegt viðhald og uppbyggingu — í merkingunni sjúkrahótelið sem unnið var að við Hringbrautina — en öðru haldið opnu. Allar þessar áminningar um að samþykkt hafi verið þingsályktunartillaga um Landspítalann eru fyrst og fremst áminningar um að andstaða við byggingu nýs Landspítala við Hringbraut er ekki nýtilkomin. Hún hefur verið til staðar í mörg ár og við, þingmenn Framsóknarflokksins, sem í eina tíð var prinsippflokkur, vorum tilbúin til að berjast fyrir því að þessi endurskoðun færi fram.

Svo koma menn jafnvel úr þeim flokki núna og vísa í skýrslu sem þáverandi hæstv. heilbrigðisráðherra lét vinna um þetta staðarval. Þeir virðast vera búnir að steingleyma umræðunni um þá skýrslu á þingflokksfundum Framsóknarmanna fyrir aðeins tveimur til þremur árum þar sem hún var dregin sundur og saman og sérfræðingar fengnir til að fara yfir hana. Niðurstaðan var auðvitað sú að þetta væri skýrsla sem eingöngu væri til þess ætluð að ná fram ákveðinni niðurstöðu, ætti að vera vopn í ákveðinni baráttu, enda forsendurnar sem lagt var upp með þess eðlis. Ef menn leggja hins vegar til grundvallar allar þær forsendur sem eðlilegt er að skoða við staðarval og undirbúning þessarar gríðarlega mikilvægu framkvæmdar er ég sannfærður um að það mun blasa við að það sé algerlega galið að halda þessari framkvæmd áfram og að hægt sé að gera þetta miklu hraðar, miklu betur og á hagkvæmari hátt á nýjum stað.