148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[16:00]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég verð að segja að fyrir mitt leyti er ég ekki alveg kominn til botns í þessu máli. Stefna Pírata í málinu er alveg skýr og við styðjum tillöguna á þeim forsendum. Þetta er meira út frá því sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson var að tala um áðan, þ.e. að það þurfi líka að hugsa til framtíðar.

Það sem vefst enn þá fyrir mér, og ég verð eiginlega ringlaðri við hverja ræðuna sem ég hlusta á í þessu máli, er hvort það þýði endilega að framkvæmdir við Hringbraut verði stöðvaðar eða þeim frestað af einhverjum ástæðum. Ég heyri ekki skýr svör enn þá. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður geti frætt mig og áhorfendur um það, en sömuleiðis hver afstaða hv. þingmanns sé.

Mér finnst í eðli sínu dálítið skrýtið að vera að ræða eitthvert skipulagsmál á Alþingi. Ég verð að segja eins og er, mér finnst það skrýtið. Hér kemur fólk í ræður og í umræðunni almennt verður orðræðan nokkuð hatrömm og svolítið mikið þannig að bent er á einhvern og sagt: Þú vilt ekki þetta og þú vilt ekki að fólk sé heilbrigt. Það heyrir maður eiginlega, ef maður les á milli línanna. Mér finnst það ekki standast. Mér finnst það ekki standast skoðun að nokkur í þessari umræðu vilji gera neitt sem kemur niður á heilsu landsmanna. Ég held að allir sem hafa skoðun í þessu máli, hver sem hún er, byggi hana á mati sínu á því hvað sé best fyrir þjóðina, best fyrir heilbrigðiskerfið okkar. Svo eru náttúrlega áhöld um hver niðurstaða tiltekinna aðila er.

En sem sé. Ef tillagan yrði samþykkt, hefði það neikvæð áhrif á þá uppbyggingu sem nú á sér stað við Hringbraut eða tefði hún það verk að einhverju leyti? Hver er afstaða þingmannsins til þess, (Forseti hringir.) ef sá möguleiki er til staðar?