148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[16:06]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að hv. þingmaður, sem er að mínu mati mikill nörd — og þetta er hrós — muni átta sig á því ef hann skoðar allar forsendur þessa máls að það muni ekki leiða til tafa við að opna og taka spítalann í notkun að hætta við að byggja nýjan Landspítala við Hringbraut og byggja hann á nýjum stað. Þvert á móti sé hægt, eins og sýnt hefur verið fram á og gögn liggja fyrir um, að byggja miklu hraðar á nýjum stað. Enda sér það hver maður og það er þekkt staðreynd, að það er miklu dýrara og tímafrekara að byggja inni í byggð sem fyrir er, ég tala nú ekki um þéttri byggð þar sem er umferðarvandamál eins og við Hringbraut, en á nýjum stað. Hægt er að hefja þessar framkvæmdir hratt, gera þær vel, gera þær með hagkvæmum hætti á nýjum stað og taka spítalann í notkun fyrr en ella. — Ekki seinna en ella heldur fyrr en hægt væri við Hringbraut.

Hvað varðar þingsályktunina, sem hv. þingmaður nefndi, bendi ég honum á það sama og í fyrra atriðinu, að skoða forsendurnar og sögu málsins, líta á skjalið sem lagt var fram í upphafi, á upphaflegu þingsályktunartillöguna um nýjan Landspítala við Hringbraut þar sem útlistað var hvernig byggja ætti nýjan spítala við Hringbraut. Því skjali var hent vegna þess að þingmenn Framsóknarflokksins fengust ekki til að samþykkja að þingið afgreiddi tillögu um nýjan Landspítala við Hringbraut. Hins vegar voru allir sammála um að ráðast þyrfti í nauðsynlegar endurbætur á húsakostinum þar. Í rauninni var þar um neyðaraðgerðir að ræða, að minnsta kosti miðað við lýsingar forsvarsmanna spítalans í fréttum. Og eins lá fyrir að sjúkrahótel yrði byggt, en það lá líka fyrir að sú bygging myndi nýtast til annarra þarfa þegar spítalinn flytti.