148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[16:09]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Margt skýrt og skorinort þar eins og hans er von og vísa. Ég er menntaður sagnfræðingur og sem slíkur er okkur nokkuð uppálagt að fara ekki endilega í pólitíkusana sjálfa sem heimild fyrir sögunni um hvernig málum er þeir koma að er í raun háttað. Ég hef akkúrat gert það sem hv. þingmaður ráðlagði hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni, að fara í forsöguna og skoða þessa tillögu og málsmeðferð hennar á þingi. Það er margt til í því sem er að finna í lýsingu hv. þingmanns en annað kannski síður.

Það sem mig langaði að spyrja hv. þingmann um er að hann var hæstv. forsætisráðherra þann dag, 16. maí 2014, þegar þingsályktunartillagan var samþykkt samhljóða og þar vísar hann sem forsætisráðherra í áætlun um byggingu nýs þjóðarsjúkrahúss, svo ég vitni í hann sjálfan í atkvæðaskýringum, sem hann vinni að með hæstv. þáverandi heilbrigðisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra. Hæstv. heilbrigðisráðherra kemur líka upp í atkvæðaskýringu þennan dag og talar um það sama. Hæstv. þáverandi forsætisráðherra og núverandi hv. þingmaður mærir fyrsta flutningsmann tillögunnar og þetta sé hafið, svo ég segi, með leyfi forseta:

„… hefur þegar haft frumkvæði að því að ræða við mig á mjög uppbyggilegan hátt um hvernig haga megi slíku samstarfi.“ Þ.e. um uppbyggingu nýs þjóðarsjúkrahúss.

Hv. þingmaður var forsætisráðherra um tvö ár eftir að þessi orð voru látin falla. Hvað varð um þá vinnu sem hér var svo mikið talað um? Af hverju höfum við ekki séð nein merki um hana, sem var greinilega mikil sátt um hér? Gæti það verið af því að sumir litu á samþykkt þingsályktunartillögunnar, þótt hv. þingmaður hafi augljóslega ekki gert það, sem svo að sáttin hefði að einhverju leyti snúist um Hringbraut? En hvað varð um þessa vinnu sem var mikið mærð hér 16. (Forseti hringir.) maí 2014?