148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[16:11]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég efast ekki um að það sé rétt ályktun hjá hv. þingmanni að einhverjir þeirra þingmanna sem samþykktu þá tillögu hafi litið á hana sem leið til að ýta áfram þessu Hringbrautarverkefni þótt ekki hafi allir gert það. En það er hins vegar mjög undarlegt ef menn ætla að reyna að nota tillöguna til að festa menn í þessum mistökum, sem eru augljósari með hverjum mánuði sem líður, að vegna þess að þingið hafi samþykkt og að því er virðist þá að mati þessa fólks einhverjir þingmenn verið plataðir til að samþykkja þingsályktunartillöguna, þá bara verði þeir að klára málið samkvæmt þeirri tillögu. Þetta heldur ekki vatni. Ekki frekar en margt annað í þeim rökum, ef rök skyldi kalla, sem beitt hefur verið í þessu máli.

Hvað varðar spurninguna um vinnuna í framhaldinu er sú gagnrýni hv. þingmanns alveg sanngjörn. Það verður að segjast eins og er að það kom á daginn að ekki var einhugur milli mín og ráðherranna tveggja sem nefndir voru, þáverandi fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherra, kannski síst heilbrigðisráðherra, um hvernig þetta mál ætti að þróast og vonbrigði að það skyldi þróast með þeim hætti sem það gerði. En ég var hins vegar mjög opinn með afstöðu mína til málsins allan þennan tíma og tjáði mig ítrekað. Fjölmiðlamenn sumir hverjir gerðu sér jafnvel að leik að tefla mér gegn heilbrigðisráðherranum þáverandi í umræðu um hvað rétt væri að gera í málinu. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ekki var samstaða þegar á leið um hvernig ætti að nálgast þetta mál.

Hins vegar fór ekki á milli mála að mjög stór hluti Sjálfstæðismanna, þar með taldir ýmsir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, höfðu fullan skilning á málinu og voru á svipuðum nótum og ég um hvað bæri að gera, þó að heilbrigðisráðherra hafi ekki verið það.