148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[16:13]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Mér finnst hann hafa með því staðfest að ekki hafi allir litið sömu augum á samþykkt þessarar tillögu og hv. þingmaður og þáverandi hæstv. forsætisráðherra gerði þá. Ekki einu sinni hæstv. samráðherrar hans í ríkisstjórn á þeim tíma. Lái þeim hver sem vill. Ég ætla að fá að lesa aftur upp þessa tillögu sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson las upp áðan:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að ljúka eins fljótt og verða má undirbúningi á endurnýjun og uppbyggingu Landspítala við Hringbraut í Reykjavík og hefja framkvæmdir þegar fjármögnun hefur verið tryggð.“

Lái þeim hver sem vill sem hafa litið á þetta sem tillögu um uppbyggingu Landspítalans við Hringbraut og þá með talið jafnvel þjóðarsjúkrahús.

En það er gott að ræða þetta. Þó að ég sé menntaður sagnfræðingur á maður ekki að festa sig um of í fortíðinni heldur horfa til framtíðar. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann um það að hann hefur talað um nauðsyn þess að uppbygging þjóðarsjúkrahússins fari fram á öðrum stað en við Hringbraut og bara mér til uppfræðslu þá hef ég aldrei skilið þann anga þeirrar tillögu sem lýtur að tengslum við flugvöllinn. Mig langar að biðja hv. þingmann að uppfræða mig og ég spyr af einlægni því að það eru rök ansi margra varðandi það að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni að þar sé hann nauðsynlegur vegna tengsla við sjúkrahúsið og það þjóðarsjúkrahús sem á að byggja þar upp. Ef það á nú að hafa þjóðarsjúkrahúsið annars staðar, er þá nauðsynlegt að flytja flugvöllinn í meiri grennd við það þjóðarsjúkrahús á nýjum stað? Eða hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að sjúkraflutningum verði hagað til (Forseti hringir.) hins nýja þjóðarsjúkrahúss á öðrum stað, ef til þess kæmi?