148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[16:15]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Bara til þess að útkljá þetta með þingsályktunartillöguna þá vitna ég hér í sjálfan mig frá því í apríl 2015, með leyfi forseta, þar sem verið var að ræða viðhald á Hringbrautinni. Þar segi ég:

„Ég tel að þetta mál sé nokkurn veginn á áætlun og algjörlega í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.“ — Sem það var. — „Það er hins vegar ekki rétt hjá hv. þingmanni að samþykkt hafi verið þingsályktun um nýjan Landspítala við Hringbraut. Það var sérstaklega rætt um að ekki væri hægt að fallast á það orðalag meðan menn væru enn þá að fylgja þeirri nálgun að bregðast við þeim skorti á viðhaldi sem átti sér stað á síðastliðnu kjörtímabili þar sem Landspítalinn varð fórnarlamb gríðarlega mikils og síendurtekins niðurskurðar …“ o.s.frv., menn geta fyllt í eyðurnar með framhaldið.

En varðandi flugvöllinn er það rétt að það er auðvitað mikilvægt samhengi milli hlutverks höfuðborgarinnar sem höfuðborgar og þar af leiðandi þjónustumiðstöðvar fyrir landið allt og Landspítalans. Bygging Landspítala á nýjum stað, t.d. við Vífilsstaði, mun hins vegar bæta sáralitlu við ferðatíma á bíl frá flugvellinum vegna þess að þrengingarnar, ég tala nú ekki um eins og þetta verður orðið eftir allar þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru við spítalann og við flugvöllinn, eru það miklar að mér skilst að það muni ekki nema kannski einni eða tveimur mínútum á ferðatíma á Vífilsstaði miðað við það að komast frá flugvellinum á Landspítalann við Hringbraut En það er þá háð því að ekki verði alger umferðarteppa hér eins og því miður virðist stefna í að geti orðið.

Hins vegar verður aðgengi að nýjum spítala á Vífilsstöðum eða öðrum þeim stöðum sem nefndir hafa verið sem hugsanlegir kostir að öðru leyti miklu betra en við Hringbraut ef menn koma akandi í sjúkrabíl eða með öðrum hætti utan af landi eða í þyrlu. Aðstaða fyrir þyrluflug á stað eins og Vífilsstöðum er miklu betri og veitir allt aðra kosti en við Hringbrautina.