148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[16:30]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég er ekki alveg viss um hvar spurningin liggur. Það voru reyndar ekki mín orð að þetta væri hættuleg hugmynd heldur orð hæstv. heilbrigðisráðherra í síðustu viku. Ég leyfði mér hins vegar að ímynda mér hverjum þessi tillaga gæti verið hættuleg og held því fram að hún geti verið hættuleg þeim stjórnmálamönnum sem þora ekki að viðurkenna fyrir sjálfum sér og öðrum að þeir hafi farið rangt að og vilji gera hlutina upp á nýtt eða öðruvísi. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir að þessi hugmynd hefur velkst um eins og hún er í 20 ár, meira og minna undir loki þöggunar. Ef maður talar við starfsmenn spítalans þora þeir í fyrsta lagi varla að koma fram undir nafni með skoðanir sínar og þeir halda því fram að ekki sé vænlegt fyrir þá að ræða málið opinskátt á vinnustað sínum. Mig rekur ekki minni til þess að gerð hafi verið alvöruúttekt á hug starfsmanna spítalans til byggingarinnar við Hringbraut. Ég held að ýmsir embættismenn sem hafa haft það að lifibrauði að hjartahnoða þessa vitlausu tillögu í 20 ár og halda í henni lífi með blæstri sjái fram á að missa spón úr aski sínum ef þetta verður frá þeim tekið og fært öðrum sem ætla að byggja nýtt þjóðarsjúkrahús á nýjum stað. Ég vona að ég hafi nokkurn veginn svarað því sem þingmaðurinn spurði mig um því að eins og ég sagði var ég ekki alveg viss um hvar spurningin hefði legið.