148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[16:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég trúi ekki alveg þeirri tilgátu að einhverjir embættismenn missi spón úr aski sínum við það að önnur ákvörðun verði tekin. Ég sé ekki hvernig það að taka slíka ákvörðun gerir það að verkum að menn missi vinnuna. Það á nú víst að vera alveg frægt hversu erfitt er að reka embættismenn, en ég læt svo sem aðra um að verja þá skoðun eða tilgátu eða hvað maður á að kalla það.

Við erum í grunninn að tala um skipulagsmál. Mér finnst hv. þingmaður, sem ég ber mikla virðingu fyrir, stundum tala í samsæriskenningum, og ég finn það líka frá hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, að það sé fólk einhvers staðar sem vill taka ranga ákvörðun vegna þess að það hagnist persónulega á því. Það hljómar þannig fyrir mér og þá á ég svolítið bágt með að trúa því, þótt ég sé vissulega meðvitaður um mannlegan breyskleika og það hvernig kerfi geta tekið stórkostlega asnalegar ákvarðanir, jafnvel stofnanir eins og hið háa Alþingi. En hvers vegna ríkti þöggun á sínum tíma, fyrir um 20 árum? Hvaðan kemur sá hvati? Getur ekki verið að núna ríki málefnalegur ótti, einlægur ótti við tafir á byggingu? Og að fyrir 20 árum hafi fólk tekið ákvarðanir út frá forsendum sem þá stóðu og er sagt í tillögunni að standist ekki lengur? Það hljómar ekki eins og eitthvað sem neinn ætti að skammast sín fyrir að segja. Svona voru forsendurnar fyrir 20 árum, núna eru þær aðrar. Stjórnmálamenn segja slíka hluti á hverjum degi. Ég kaupi ekki alveg þessa tilgátu.

Hv. þingmaður fór alveg rétta leið í fyrra svari sínu, svo honum sé gefið það, en ég hef aðra spurningu: Af hverju þöggunin á sínum tíma? (Forseti hringir.) Af hverju hefur þetta verið þaggað niður í 20 ár?