148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[16:35]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni Pírata fyrir varnarræðu um kerfið. (HHG: Nei.) Ég hélt að ég myndi ekki upplifa slíka stund. (HHG: Nei.) En ég þakka fyrir engu að síður.

Ég er ekki í samsæriskenningunum. Nú man ég ekki hvort hv. þingmaður var eins og ég á mjög góðum fundi í Norræna húsinu í haust í kosningabaráttunni þar sem þeir ágætu aðilar sem barist hafa hvað hatrammast og best og mest fyrir byggingu nýs þjóðarsjúkrahúss á nýjum og betri stað fóru yfir hina um 20 ára gömlu sögu og fóru þá í gegnum það, sem satt er, að það hefur nánast ekki mátt ræða á neinum tíma aðra tillögu en þá að nýtt þjóðarsjúkrahús verði reist við Hringbraut.

Hverjir koma til með að hagnast á því? Ég veit það ekki. Ég er enn að leita að þeim. Sá einlægi ótti sem hv. þingmaður talar um að menn hafi við að töf verði á framkvæmdunum kann vel að vera til staðar en hann er ekki á rökum reistur vegna þess að flutningur þessa sjúkrahúss, þ.e. að byggja það á nýjum og betri stað frá grunni, mun ekki tefja þetta ferli svo neinu nemi. Eins og ég sagði áðan í ræðu minni: Er það svo að þegar meðferðarkjarninn við Hringbraut er tilbúinn verði allir hamingjusamir upp frá því? Nei, þá búa sjúklingar áfram á byggingarsvæði næstu 20 árin meðan verið er að endurbæta gömlu húsin. Kenningin um tafir á framkvæmdinni stenst því einfaldlega ekki, hv. þingmaður.