148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[16:37]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Það mál sem við ræðum varðar mjög stóra þjóðfélagslega ákvörðun. Þetta er afar mikilvægt mál í heilbrigðismálum þjóðarinnar, mjög stór fjárhagsleg ákvörðun, mjög stór ákvörðun fyrir skipulagsmál og borgarlíf í Reykjavík. Þeir sem hafa haldið uppi þessum málflutningi koma einkanlega úr tveimur stjórnmálaflokkum, flokki flutningsmanns, hv. þm. Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, þ.e. Miðflokknum, og mínum flokki, Flokki fólksins.

Í allri hógværð vil ég leyfa mér að nefna að þetta mál er alls ekki nýtt fyrir mér. Ég hef, aftur í fullri hógværð, haft tækifæri til þess á undanförnum árum að fjalla um staðarval Landspítalans, m.a. í fjölmiðlum. Innsti kjarni málsins snýst um ákvarðanatöku í lýðræðislegu samfélagi. Við stöndum frammi fyrir því að veigamiklar og jafnvel veigamestu forsendur sem liggja til grundvallar áformum um uppbyggingu þjóðarsjúkrahúss við Hringbraut eru miklum efa undirorpnar, svo vægt sé til orða tekið. Málið er ekki flóknara en það.

Hér hefur verið haldið uppi, alveg frá því þing kom saman um miðjan desember, þar á meðal í umræðu um fjárlagafrumvarpið, og ítrekað verið leitast við, leyfi ég mér að segja, að koma vitinu fyrir stjórnvöld í málinu á þeim grundvelli að þessar veigamiklu forsendur séu ekki fyrir hendi. Hverjar eru þær? Þær lúta ekki síst að skipulagsmálum, aðkomuleiðum, bílastæðum, byggingarmagni á reitnum, tengingum við þær byggingar sem fyrir eru og eru þjakaðar, eins og fram hefur komið í fjölmiðlum, af raka og myglu, þekkt dæmi eru um starfsfólk sem hefur þurft að þola þjáningar vegna þess að það hefur veikst sökum heilsuspillandi aðstæðna á vinnustað sínum. Það sem gerist í málinu er að af hálfu æðstu virðulegra ráðamanna í málaflokknum er gripið til stóru sleggjunnar og sagt að ef sú meginhugmynd sem er uppi um að fram fari fagleg staðarvalsgreining og teknir til þess nokkrir mánuðir, hóflegur tími, muni það kosta það að uppbygging á meginspítala þjóðarinnar tefjist um 10–15 ár. Það eru svolítil skekkjumörk í því mati, leyfi ég mér að segja.

Þeim sem hafa haldið uppi þessum málflutningi af þeirri kurteisi og hógværð sem hefur einkennt hann með ósköp einfaldari vísan til forsendnanna, til málefnalegrar umræðu sem átt hefur sér stað meðal áhugafólks í borgaralegum samtökum sem heita Samtök um betri spítala á betri stað, er mætt á þann hátt að þeir eru spurðir á þessum vettvangi hvort menn ætlist til þess að verða teknir alvarlega.

Það er stundum talað um virðingu Alþingis og annað af því tagi. Maður spyr sig: Er það til þess fallið að auka virðingu Alþingis að þegar bent er á augljósar hættur um að í aðsigi séu mistök, að ekki sé sagt slys, sé engin leið til þess að fá um það ærlega umræðu sem einkennist af öðru en stóryrðum eins og þeim að þetta muni fresta öllu málinu um 10–15 ár og öðru af því tagi?

Síðan eru veigaminni forsendur sem skipta engu máli en hafa samt sem áður komið við sögu þessa máls og hafa sumar verið nefndar í fyrri ræðum, eins og sú að það að velja spítalanum þessa staðsetningu hefði þýðingu fyrir uppbyggingu miðborgar Reykjavíkurborgar, líkt og það sé ástæða sem hægt er að tefla fram þegar menn eru að velja stað fyrir sjálft þjóðarsjúkrahúsið.

Annað sem hefur verið haldið fram er mikilvægi nálægðar við Háskóla Íslands, þegar allir vita að kennsla og rannsóknir í heilbrigðisvísindum fara fram um alla borg. Er þá eitthvert atriði að nálægð sé við aðalskrifstofu háskólans?

Það er líka mjög eftirtektarvert í umræðunni sem ekki er nefnt. Ég ætla að leyfa mér að vekja athygli á því af hálfu þeirra sem strita við að verja þessa staðsetningu og ákvörðun, ef ákvörðun skyldi kalla. Það er ekki minnst á fjárhagslega hagkvæmni á uppbyggingunni við Hringbraut og tengsl við þau raka- og mygluhús sem þar eru.

Fyrir nokkrum árum sat maður við það á útvarpsstöðvum landsmanna að fjalla um reiknaðan ávinning, einhverjir 3 milljarðar í rekstrarhagkvæmni á ári. Miðað við umræðu á þeim tíma átti það að vera fjárhagsleg réttlæting fyrir þessu staðarvali. En sú fjárhæð út úr rekstri er náttúrlega innan skekkjumarka, eins og menn gera sér grein fyrir.

Það eru fleiri skrýtin atriði sem fyrir augu ber í málinu. Eitt er það að hér er skýrsla frá endurskoðunarfyrirtæki, sem er hið ágætasta fyrirtæki og ég skyldi síst halla orði á eða lasta á nokkurn minnsta hátt, en hvað í ósköpunum höfum við að gera með skýrslu um skipulagsmál og slíka þætti, jafnvel læknisfræðilega þætti, frá hendi endurskoðunarfyrirtækis?

Það er margt afar sérkennilegt í málinu. Það er eins og ríki mikil tregða við að horfast í augu við að þetta mál hefur kannski verið rekið meira af kappi en forsjá og forsjá er sannarlega nauðsynleg þegar stórar ákvarðanir eru undir.

Herra forseti. Ég leyfi mér að ljúka ræðu minni á því að hvetja þá sem fara með þessi mál til að endurskoða harða afstöðu sína gegn þeim hógværa, hófstillta og málefnalega málflutningi sem hér hefur verið haldið uppi og þeim varnaðarorðum um það slys sem kann að vera í aðsigi. Ég minni á það sem ég hef áður sagt um þetta varðandi þau mistök sem hætta er á að við séum að ráðast í. Því er haldið fram að spítalinn sé fullfjármagnaður en, herra forseti, mistök verða ekki betri fyrir þá sök að þau séu fullfjármögnuð.