148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[16:51]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta svar. Það eru líka önnur atriði vegna þess að það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður segir að nú er ekki minnst á þessa rekstrarhagkvæmni lengur vegna þess að menn hafa hrakist úr einni höfn í aðra í vörn sinni fyrir þessari arfavondu ákvörðun. Líkt og ég leyfði mér að segja, ég veit ekki hvort hv. þingmaður er mér sammála um það, í ræðu minni áðan að það virðist vera mikil tregða hjá stjórnmálamönnum hvers tíma — nú geri ég mér grein fyrir því að á 20 árum hafa mjög margir stjórnmálamenn og ráðherrar komið að þessu máli — eða hræðsla við það að viðurkenna að menn séu komnir á ranga braut og snúa af henni. Eins og hv. þingmaður orðaði það svo vel, menn þverskallast við hógværum og réttmætum athugasemdum um málið.

Það er eitt atriði sem í sjálfu sér hefur ekki verið áberandi í þessari umræðu í dag. Mig langaði til að spyrja hv. þingmann hvort hann hefur vitneskju um það atriði. Það er næsta víst að það er nokkuð ljóst að ráðast þarf í gríðarlegar framkvæmdir við umferðaræðar í nálægð við sjúkrahúsið verði það byggt við Hringbraut. Ég man ekki til þess að þessi kostnaður hafi verið reiknaður inn í kostnaðinn við framkvæmdina sem slíka, þar sem ég vil nefna 100 milljarða og tel að það sé nokkuð nálægt lagi. Spurningin er: Hefur hv. þingmaður upplýsingar um það hversu mikið mun kosta að reyna að koma samgöngumálum í grennd við Hringbrautina í forsvaranlegt horf? Þá er ég að tala um jafnvel göng undir Öskjuhlíð, þá er ég að tala um nokkur mislæg gatnamót o.s.frv. Mér þætti vænt um ef þingmaðurinn gæti varpað ljósi á þetta.