148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[16:53]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni athugasemdir hans og ábendingar. Það sem ég tel vega þyngst í þessu er að með sínum orðum hér minnir hann með glöggum hætti á þær forsendur sem hafa legið til grundvallar varðandi umferðaræðar að og frá spítalanum. Það var rifjað upp mjög glögglega á fundi sem fyrrgreind samtök sem ég gat um í ræðu minni stóðu fyrir, Samtök um betri spítala á betri stað, að meðal forsendna — og hv. stjórnarþingmenn, leggið vinsamlega við eyrun, ef ég mætti leyfa mér að segja það — voru tvenn göng í Reykjavík, önnur undir Öskjuhlíð eins og hv. þingmaður gat um. Og það er forsenda um að Miklabrautin sé í einhverjum stokk og eitthvað svona.

Síðan kemur það núna fram á seinni stigum að gert er ráð fyrir því að grónar íbúðargötur í nágrenni spítalans eigi að vera farvegur fyrir þungaflutninga á líni og öðru slíku. Við erum að tala um Eiríksgötuna í Reykjavík. Þannig að öll vötn falla til Dýrafjarðar í þessum efnum. Þessi málsvörn þessara ágætu stuðningsmanna byggingarframkvæmda við Hringbraut á grundvelli forsendna sem eru ekki fyrir hendi, á grundvelli skýrslna sem standast ekki skoðun a.m.k. að öllu leyti, er á sandi byggð.