148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[16:56]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um það sem kallað er óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús. Það má eiginlega segja að í fyrirsögninni felist að allt það sem hefur verið gert í þessu máli fram að þessu, allir þeir sérfræðingar sem að málinu koma, allar nefndir, allir fagaðilar sem hafa komið að því, hafi haft undir einhver annarleg sjónarmið eða önnur sjónarmið en fagleg þegar þeir lögðu fram sínar skoðanir og þegar þeir skiluðu sínum álitum. Ég held nú að svo sé ekki. Ég held að það fólk hafi haft býsna góðan grunn til þess að meta það á hvaða forsendum væri skynsamlegt að byggja spítalann við Hringbraut og af hverju það væri skynsamlegra að byggja hann þar heldur en einhvers staðar annars staðar.

Við skulum ekki gleyma því, ágætu hv. þingmenn, að verkefnið er þegar hafið við Hringbraut. Það er þegar búið að byggja eða langt komið með að byggja sjúkrahótel við Hringbraut og í sumar verður tekin fyrsta skóflustungan að meðferðarkjarnanum sem vel að merkja mun skila stærsta hlutanum af ávinningnum sem fylgir því að flytja sjúkrahúsið við Hringbraut, að langstærstum hluta.

Árið 2011 var það metið svo að ávinningurinn af byggingu 1. áfanga sem þá var talað um sem meðferðarkjarna væri um 2,5–2,6 milljarðar á ári. Það eru umtalsverðir peningar. Það eru peningar sem við skulum ímynda okkur að geti strax og búið er að byggja þann meðferðarkjarna farið í það að sinna sjúklingum en ekki í verkefni eins og að flytja sjúklinga á milli meðferðarkjarna eins og gert er í dag. Þetta er dálítið mikið mál. Á tíu ára tímabili eru 2,5 milljarðar allt í einu orðnir að 25, allt í einu orðnir að heilmiklum pening. Þessi tímafaktor skiptir ekki bara máli út af þessu. Hann skiptir líka máli vegna þess að undir eru sjúklingar. Það er fólk sem þarf á meðferð að halda og hv. þingmenn verða að átta sig á því að á meðan við bíðum þá getum við ekki búið Landspítala við Hringbraut eins og hann er í dag fullkomnustu tækjum og búnaði. Það eru nú þegar komin upp fleiri en eitt og fleiri en tvö tilvik þar sem menn hreinlega geta ekki farið út í endurnýjun á tækjabúnaði vegna þess að húsnæðið sem er við Hringbraut í dag leyfir það ekki.

Við erum t.d. að taka í notkun ekki fullkomnasta jáeindaskannann sem í boði er núna, þó í sjálfu sér sé í landinu þekking til þess að nota slíkt tæki, heldur erum við að tala um kynslóð tækis sem er næst á undan vegna þess að húsnæðið á staðnum í dag leyfir ekki að taka í notkun fullkomnustu græjuna.

Hvað ætla hv. þingmenn að velta sér oft við í fletinu með ákvörðunina og snúa sér oft undir feldinum áður en þeir átta sig á því að það er búið að taka þessa ákvörðun? Síðast árið 2014 og það er ekkert ofboðslega langt síðan það var, 2014, jæja, þrjú og hálft ár. Þá var það samþykkt mótatkvæðalaust í þinginu. Mótatkvæðalaust. 56 þingmenn með, sjö voru fjarverandi. (Gripið fram í: … náttúrlega útúrsnúningur.) 56 þingmenn með og sjö fjarverandi.

Tillagan sem var samþykkt, ég ætla að lesa hana, með leyfi forseta, var svona:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að ljúka eins fljótt og verða má undirbúningi á endurnýjun og uppbyggingu Landspítala við Hringbraut í Reykjavík og hefja framkvæmdir þegar fjármögnun hefur verið tryggð.“

Svo mörg voru þau orð. Þetta er það sem þarna stendur.

Níu heilbrigðisráðherrar frá fimm mismunandi stjórnmálaflokkum hafa komið að málinu. Ég held að þeir þingmenn sem segja að menn séu að þverskallast við að taka umræðuna ættu kannski að líta í eigin barm. Hverjir þverskallast við að horfa á staðreyndir málsins? Hverjir þverskallast við að horfa á það að það bíður fjöldi sjúklinga og fjöldi heilbrigðisstarfsfólks eftir því að fá nýtt sjúkrahús?

Haldi menn að það sé einhver örfárra ára munur á því að taka núna enn einn hring á staðarvali og því að halda sig við þá ákvörðun sem þegar hefur verið tekin, þá ættu menn að skoða þetta allt betur út á hvað skipulagsmál í Reykjavík eða á höfuðborgarsvæðinu yfirleitt ganga. Svoleiðis ákvörðun og svoleiðis framkvæmd verður ekki tekin á einhverjum örfáum aukamánuðum, jafnvel ekki á einhverjum aukaárum. Menn greinir að vísu eitthvað á um það hvað tíminn gæti verið langur, en ég hef heyrt allt frá átta og upp í 15 ár sem þetta myndi muna. Það er bara töluvert mikið.

Ef við horfum til þess hver sparnaðurinn er á ári þá erum við að tala um hellingspening, jafnvel þó við tækjum neðri mörkin. Það kostar nefnilega helling að bíða.

Menn hafa áhyggjur af umferð. Ég skil þær áhyggjur ágætlega. Sem betur fer eru borgaryfirvöld í Reykjavík núna annars vegar að vinna að því að taka í notkun borgarlínu sem á að taka töluverðan hluta af þeirri umferð sem er á höfuðborgarsvæðinu. Það vill svo heppilega til að ef við höldum okkur við þessa ákvörðun þá verður borgarlínan líklega tilbúin eða mjög langt með það að verða tilbúin um það leyti sem spítalinn verður tilbúinn, sem er ljómandi gott. Ég held að fjármunum ríkisins og sveitarfélaganna í kring væri býsna vel varið í það verkefni. Ég held að í millitíðinni þá muni þær forgangsgreinar sem borgin hefur þegar byrjað að setja upp að spítalanum hjálpa. Ég hef ekki miklar áhyggjur af því að það sé vandamál sem við getum ekki leyst. Ég hef miklu meiri áhyggjur af því að við leyfum okkur það að taka enn einn snúning á því hvar við ætlum að vera með spítalann.

Horfum 40, 50 ár fram í tímann. Þá getur vel verið að það verði tímabært að byggja nýjan spítala, það má vel vera. Ég er alveg til í að taka þá umræðu með mönnum hvar spítalinn verði þá, hvort hann verði áfram við Hringbraut eða hvort hann fari eitthvert annað. En ég ætla ekki að taka þá umræðu núna. Ég ætla ekki að segja sjúklingum og starfsfólki: Nei, þingið ætlar að taka einn snúning á þessu í viðbót. Við ætlum að taka fimmta snúninginn á þessu. Við ætlum að bíða eftir enn einum heilbrigðisráðherra. Við ætlum að bíða eftir enn einni ákvörðun. Verið þið bara róleg. Myglan og húsnæðisskorturinn og vandræðagangurinn með húsnæðið sem við eigum við í dag, við setjum það bara á ís, er það ekki? Látum eins og engin ákvörðun hafi verið tekin. Látum bara eins og við séum á núllreit núna.

Það er ekki þannig, hv. þingmenn. Reynum að einhenda okkur í það verkefni sem þegar hefur verið tekin ákvörðun um, byggjum nýjan spítala og reynum að drífa í því við Hringbraut. Þegar það verkefni er búið þá getum við farið að velta því fyrir okkur hvort hann muni vera eftir 50 ár einhvers staðar annars staðar eða hvort við höldum áfram við Hringbraut.