148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[17:07]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Takk fyrir þetta. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Eins og honum er náttúrlega fullkunnugt um flytur borgarlínan ekki sjúklinga á spítalann heldur flytur hún þangað starfsfólk og vonandi eitthvað af gestum. Flestar ferðirnar til spítalans eru ekki ferðir sjúklinga á spítalann heldur þeirra sem þar vinna og þeirra sem koma og heimsækja sjúklingana. Þeir geta sem best nýtt sér almenningssamgöngur, sem betur fer, alla vega margir hverjir, og forgangslínur sem er þegar farið að vinna að, eins og ég nefndi í ræðu minni, munu geta tryggt að sjúklingar haldi áfram að komast með öruggum hætti til sjúkrahússins.

Við skulum átta okkur á því, ég veit ekki hvort hv. þingmenn hafa kynnt sér það, að Landspítalinn eins og hann er í dag, þ.e. annars vegar við Hringbraut og hins vegar í Fossvogi, er með einn stysta tímann í Evrópu frá útkalli og þar til komið er með sjúklinga á sjúkrahúsið.