148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[17:13]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil leggja áherslu á það í mínu síðara andsvari hvað þingmenn bera ríka ábyrgð þegar kemur að því að lausnir séu ákveðnar með hagkvæmnissjónarmið fyrir augum. Það er mörgum ljóst hversu knappan fjárhag heilbrigðisþjónustan býr við. Ég held að það sé kannski fáum mönnum ljósara en þeim sem sitja í hv. fjárlaganefnd Alþingis. Þar mættu fulltrúar Landspítalans, Sjúkrahússins á Akureyri, SÁÁ, heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni, hjúkrunarheimila, og það má vera svo ljóst að það vantar alvarlega fjármögnun inn í þetta kerfi. Það að bjóða upp á það í umræðu um svona stóra framkvæmd að menn eigi bara að horfast í augu við það að það sé búið að taka þessa ákvörðun (Forseti hringir.) og menn eigi bara að sætta sig við það og þetta sé svona og af því bara og allt eftir þessum nótum, er, herra forseti, óboðlegur málflutningur. (Gripið fram í: Rétt.)