148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[17:15]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað skiptir verulegu máli eins og hv. þingmaður kemur inn á að menn vinni verkefnin á sem hagkvæmastan hátt. Það er enginn vafi á því. Það er m.a. þess vegna sem staðarvalið við Hringbraut var valið upprunalega.

Á árunum eftir hrun, ég man nú ekki hvort það var 2009, 2010 eða 2011, þegar var farið í kostnaðarmat á því hvað kostaði að byggja annars vegar við spítalann við Hringbraut eins og áformin eru núna versus það að byggja einhvers staðar annars staðar, þá komust menn að þeirri niðurstöðu að við hefðum hreinlega ekki efni á því að byrja frá grunni einhvers staðar annars staðar. Það má vel vera að hv. þingmenn meti það svo í dag að við höfum alveg efni á því af því að hagur ríkisins hafi vænkast svo mikið. Ég held hins vegar og er enn þá þeirrar skoðunar að það sé betra að byggja þann spítala sem við þurfum (Forseti hringir.) en ekki endilega þann sem okkur langar í.