148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[17:16]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, við eigum ekki að sætta okkur við það að byggja akkúrat bara það sem við þurfum. Mér finnst hv. þingmaður ekki hafa mikinn metnað fyrir hönd þeirra sem hann þykist nú tala fyrir í þessum ræðustól, bæði sjúklinga og starfsfólks Landspítalans. Við þurfum að byggja góðan spítala. Við þurfum að byggja á þeim stað til framtíðar þar sem eitthvert almennilegt gagn og framtíðarsýn er uppi.

Hv. þingmaður notar gjarnan sjúklinga í rökstuðningi sínum. Ég ætla að gera það líka rétt á eftir. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Telur hann að búið sé að leysa úr þeim samgönguvandamálum sem augljóslega eru uppi varðandi aðkomuna að Hringbrautinni og hv. þingmaður réttilega kom inn á áðan? Þingmaðurinn sagði í ræðu sinni að það myndi reddast, við myndum bara redda samgöngumálunum. Það er augljóst að borgarlínan reddar því ekki bara ein og sér. Hvernig ætlar hv. þingmaður að redda því? Er búið að skoða það?

Síðan langar mig að spyrja hv. þingmann. Nú hefur hv. þingmaður verið í læknaelítunni hjá Landspítalanum. Kannast hann ekki við það að starfsfólk hafi mótmælt því að hafa ekki fengið að tala um þessa hluti? Man þingmaðurinn eftir fundinum sem við vorum báðir á í Norræna húsinu þar sem starfsfólkið (Forseti hringir.) kvartaði undan því við okkur að það fengi ekki að tala, að það væri þöggun í gangi (Forseti hringir.) á Landspítalanum?