148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[17:19]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og þá staðreynd að hann hefur ekki hugmynd um hvernig leysa á að þessi umferðarmál og ljóst að enginn hefur upplýst hann um það heldur.

Hv. þingmaður svaraði ekki spurningu minni um hvort hann kannist við það að á fundi í Norræna húsinu hafi starfsfólk Landspítalans sagt frá því að það sé beitt þöggun, að það megi ekki tala um annað en að Landspítalinn eigi að vera við Hringbraut.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann úr því að honum er svo annt um sjúklingana. Hvernig getur hv. þingmanni dottið í hug að bjóða sjúklingum upp á það í 10, 12 ár að búa við hamarshögg, sprengingar, ryk, hundruð iðnaðarmanna, þúsundir vörubíla fara fram og aftur um byggingarsvæðið við nýjan Landspítala? Hvernig getur hv. þingmaður sagt að það skipti ekki máli þegar hann ber svona mikla umhyggju fyrir sjúklingnum? Það er akkúrat það sem þarf að koma í veg fyrir að svona ástand vari árum og áratugum saman, því að við vitum í rauninni ekki hversu langan tíma það tekur að klára t.d. gömlu byggingarnar við Landspítalann. Ef það þarf að rífa þær vegna þess að þær eru svo illa farnar og myglaðar, hvað þá? Hv. þingmaður verður að gera sér grein fyrir því að það tekur ekkert lengri tíma að byggja nýjan spítala. (Forseti hringir.) Ef hann hefur kynnt sér málið, t.d. á www.betrispitali.is, þá (Forseti hringir.) hafa sérfræðingar fært rök fyrir því að hægt er að gera nýjan spítala á 10 árum.