148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[17:20]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held ekki að það sé nein þöggun í gangi. Það að umræðan hefur verið tiltölulega lifandi og vakandi í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum og víðar er einmitt ágætisdæmi (Gripið fram í.) um það. Ég hef ekki orðið var við það á spítalanum að það sé nein þöggun í gangi. Ég held að tveir af áköfustu talsmönnum þess að skipta um skoðun eða tala um aðra staðsetningu á spítalanum séu einmitt virtir starfsmenn á Landspítalanum. Það er allt í góðu með það. Hinir eru bara miklu fleiri. Það er bara þannig. Það er þess vegna sem starfsmenn Landspítalans fjölmenna til að mynda ekki á pallana þegar þessi umræða fer fram. Hv. þingmaður skal ekki halda að það sé einhver tilviljun. Það er enginn þarna úti (GBS: Svaraðu spurningunni.) að velta því fyrir sér af hverju við erum að ræða þetta núna. Það er ekkert í gangi. (Forseti hringir.) Það er ekki nein tilviljun. Það er búið að taka þessa ákvörðun. Þannig lítur fólk almennt á það.