148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[17:21]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langaði einmitt að heyra í einhverjum sem væri á móti þessu máli flytja eina ræðu, bað hv. þingmann að skipta við mig um sæti, hann var til í það, þakka honum fyrir það. Ég held hér stutta ræðu um sýn mína á þetta mál eftir þessar umræður í dag.

Það sem ég tók eftir í máli hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar þegar ég spurði hann áðan í andsvari, þ.e. þegar ég spurði hv. þingmann út í hverjar afleiðingarnar yrðu í sambandi við tafir á núgildandi verkefni við Hringbraut, þá var í raun og veru það helsta sem hann tók til, ef ég skildi hann rétt, það væri meðferðarkjarninn, að meðferðarkjarninn sem ég heyrði í ræðu hv. þingmanns að fyrsta skóflustungan yrði tekin að núna í sumar, að sá meðferðarkjarni myndi tefjast. Ef mig rekur minni rétt til, sem er nú ekki alltaf tilfellið, þá nefndi einhver þingmaður áðan sjö til átta mánaða töf, eitthvað því um líkt, ég veit ekkert hversu raunhæft það er og kannski var ég að misskilja.

En mig langar að spyrja hv. þingmann hver áhrifin af því eru. (Forseti hringir.) Hversu stór þáttur er meðferðarkjarninn og tafir á uppbyggingu hans af þeim forsendum sem við þurfum að taka til hliðsjónar þegar við tökum ákvörðun í þessu máli?