148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[17:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um óháða, faglega staðarvalsgreiningu fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús. Hér hafa sem betur fer nokkuð margir þingmenn tekið þátt í umræðunni og hún svo sem verið ágæt. Einhverjir útúrsnúningar hafa verið varðandi efnisinnihald þessarar tillögu. Það er þó þannig að einn hv. þingmaður sem kom hér í ræðustól, hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson, hafði greinilega ekki verið hér við umræðuna fyrri hlutann þar sem farið var vel yfir aðdraganda þess að þessi svokallaða þingsályktun frá 2014 eða ákvörðun var samþykkt. Það er um að gera fyrir þingmanninn að kynna sér allar umræður og ræður sem voru fluttar af því tilefni og síðar þar sem augljóslega kemur fram að það var ekki verið að samþykkja nýjan spítala.

Það sem verið er að leggja til hér er að fram fari fagleg, óháð staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús og það er vitanlega um að gera því að þær forsendur sem þessi ákvörðun byggði á á sínum tíma, að reyna að koma þessu fyrir við Hringbraut, eru orðnar gamlar og margar hverjar úreltar.

Við höfum aðeins rætt um umferðarmannvirki og umferð, er af nógu að taka þar. Síðan eru það að sjálfsögðu skipulagsmálin, hvernig byggð hefur þróast. Hver hefur t.d. fjölgun ferðamanna í Reykjavík verið frá því þessi ákvörðun var tekin? Hvernig hefur umferðin breyst í Reykjavík? Hver er fjölgun bíla? Ég veit að það eru ákveðnir stjórnmálamenn sem eru með þá flugu í höfðinu að bílar muni hætta að sjást í miðborg Reykjavíkur, að menn verði bara annaðhvort í strætó eða hjólandi. Það verður að sjálfsögðu ekki þannig. Borgin er að færast meira í austurátt, miðja þjónustunnar að færast hægt og bítandi og því væri eðlilegt að færa í það minnsta það sem hægt er að færa. Má þar nefna nýjan spítala.

Sjúklingar eru gjarnan nefndir sem rök í þessu máli sem er eðlilegt, þeir eru viðskiptavinir þessa stóra og mikla sjúkrahúss, en við hljótum líka að þurfa að velta því fyrir okkur hvernig er best að huga að þeim til framtíðar. Það er ekki með því að láta sjúklinga vera núna í áratug eða meira, tíu, fimmtán ár, búandi við þann óskapnað sem á sér stað núna í Þingholtunum eða við Hringbrautina.

Við megum heldur ekki gleyma því að frá því að þessi ákvörðun var tekin um að halda þarna áfram og miða þessa uppbyggingu við að hún yrði við Hringbraut hefur fasteignaverð margfaldast og snarhækkað í Reykjavík, ekki síst á þessu svæði. Þarna er um að ræða byggingar sem geta nýst í annars konar húsnæði en akkúrat sem sjúkrahús eða sjúkrahótel og þarna eru gríðarlega verðmætar lóðir. Að sjálfsögðu þurfum við að fara yfir þetta mál allt frá A til Ö áður en lengra er haldið.

Hvers vegna ekki að gera það? Við hvað eru menn hræddir? Við hvað eru þeir sem stýra þessu í dag hræddir varðandi að skoða þetta mál? Einhver ráðherra sagði hér að þetta væri hættulegt. Hvað er svona hættulegt við það? Er það hættulegt vegna þess að niðurstaðan gæti orðið önnur en ráðherrann hefur haldið fram eða tugir annarra ráðherra sem hafa verið í þessu embætti? Er það sem er hættulegt að menn þurfi kannski að skipta um skoðun? Er eitthvað hættulegt við það að fram komi að hugsanlega sé betra að gera þetta annars staðar? En ef niðurstaðan verður sú sama frá þessum sérfræðingum sem hér hafa lagt til að taka upp málið, þá þarf enginn að óttast neitt, þá er ekkert hættulegt við það.

Við leggjum einfaldlega til að þessi staðarvalsgreining fari fram og henni verði lokið mjög fljótt, mig minnir að það sé í maí sem eigi að ljúka þessu.

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að lesa upp úr frétt, með leyfi forseta, sem var birt hjá Ríkisútvarpinu:

„… flokkurinn telur það alvarleg mistök að reisa nýtt þjóðarsjúkrahús við Hringbraut. Flokkurinn vill skipa óháða nefnd með aðkomu erlendra sérfræðinga til að fara yfir málið. … formaður flokksins segir að kannað verði hvort hægt sé að byggja nýjan spítala á nýjum stað.“

Áfram er haldið, virðulegi forseti:

„… flokkurinn boðaði til blaðamannafundar í dag þar sem kom fram að flokkurinn óttast að alvarleg mistök séu í uppsiglingu við staðarval á nýju þjóðarsjúkrahúsi. Hringbraut sé óheppileg staðsetning, það hljótist mikið rask af framkvæmdum þar og umferðarmannvirki ráði nú þegar ekki við umferð í nágrenni spítalans.

„Okkur finnst skynsamlegast að setja af stað óháða úttekt, meðal annars með aðkomu erlendra sérfræðinga, um hvort ekki sé hægt að byggja nýjan spítala á nýjum stað, betri stað, hraðar og betur en núverandi áform eru uppi. Okkur finnst það einfaldlega skynsamlegt,“ segir … formaður flokksins.““

Síðan er millifyrirsögn: „Nú er 2016.“ Og svo frá blaðamanni: „Fundurinn í dag var haldinn rétt við Vífilsstaði, sem flokkurinn telur góðan stað fyrir nýjan spítala.“

Síðan spyr blaðamaður: „Nú hafa sérfræðingar sagt að það myndi tefja verkið um 10–15 ár að hætta við spítalann við Hringbraut og flytja hann á Vífilsstaði, hvað segið þið við því?“

„Það er eitt af því sem hefur einmitt verið umdeilt. Sérfræðingar úr ólíkum áttum hafa deilt um þetta nákvæmlega. Og þetta er eitt af þessum atriðum sem þessi óháða nefnd þarf að skoða.“

Blaðamaðurinn segir síðan að fyrrverandi ráðherrar hafi öll sagt að þau vilji spítalann við Hringbraut og spyr: „Hefur flokkurinn skipt um skoðun?“

„Flokkurinn hefur verið á þessari skoðun, að þetta eigi að skoða, núna um nokkurt skeið. Það að þessir ágætu flokksmenn okkar sem allir hafa verið heilbrigðisráðherrar, hafi verið á þessari skoðun er ekkert skrýtið. Þessi ákvörðun og undirbúningur hennar byggðist á skoðunum sem voru gerðar hér fyrir aldamót. Nú er 2016. Og við erum að fara að byggja hér spítala sem á að standa í 40 ár. Þá verðum við að horfa á stöðuna eins og hún er, umferðina eins og hún er, og hvaða framtíðarvaxtarmöguleika heilbrigðiskerfið og okkar þjóðarsjúkrahús á að hafa.“

Síðan spyr blaðamaðurinn: „Verði Framsókn í ríkisstjórn, hver verða ykkar fyrstu skref í þessu máli?

„Að setja á laggirnar þennan óháða hóp. Hann á að ljúka störfum 30. apríl á næsta ári,“ segir Sigurður Ingi.“

Þarna var formaður Framsóknarflokksins í viðtali við Ríkisútvarpið. Þetta er í október 2016. Maður spyr þá: Hvað í ósköpunum hefur gerst síðan? En á sama tíma fagna ég að þessi yfirlýsing hafi átt sér stað því að ég fæ ekki betur séð en formaður Framsóknarflokksins ætli sér að stökkva til og tryggja það að tillaga Miðflokksins fari í gegnum þingið og þetta verði skoðað. Í það minnsta er tillagan algerlega í samræmi við það sem hann sjálfur lét hafa eftir sér á þessum blaðamannafundi.

Virðulegi forseti. Það er ekkert um seinan að skoða þetta mál betur. Það er ekki um seinan. Að sjálfsögðu halda menn áfram að bæta þetta húsnæði sem þarf svo sannarlega að bæta við Hringbraut. En við erum að tala um fjárfestingu upp á tugi eða hundruð milljarða á endanum og er þá ekki skynsamlegt að setjast niður og velta þessu fyrir sér til langrar framtíðar? Það er að mínu viti galið að ætla að fara að setja tugi eða hundruð milljarða í þetta og koma svo hér í ræðustól og segja: Við ætlum líka að byggja annan spítala, við ætlum að byrja á því eftir 15, 20 ár, við ætlum bara að gera það þá.

Er ekki skynsamlegra að velta þessu aðeins betur fyrir sér, skoða málið, koma með niðurstöðu núna í maí? Þá getum við öll hætt að rífast um þetta mál. Ég get alveg lofað ykkur því að verði þessi nefnd fagleg og óháð, það er nú mikið búið að gera úr því hér, með sérfræðingum sem ekki eiga einhverra hagsmuna að gæta af málinu í dag, ekki stjórn Landspítalans, ekki elítan sem stýrir þessu máli, þá segjum við: Allt í lagi, ef niðurstaðan verður sú að Hringbraut sé besti kostur þá að sjálfsögðu drögum við okkur í hlé og þegjum yfir þessu máli. En ef það kemur eitthvað annað út úr þessu, að það sé betra að byggja við Fossvog, fara upp í Vífilsstaði eða Keldnaland sem ríkið á enn þá, ég vona að menn séu ekki svo galnir að þeir ætli að fara að selja það frá sér áður en þetta er fullkannað, þá komumst við einmitt að þeirri niðurstöðu og getum lokað málinu. Af því að málinu hefur ekki verið lokað. Það er ekki þannig að því hafi verið lokað.

En ég frábið mér það að menn komi hérna upp og hafi ekki neinn rökstuðning fyrir því af hverju er ekki hægt að skoða þetta mál. Menn segja bara: Það er búið að ákveða þetta. Menn lemja hausnum við steininn og segja: Það er búið að ákveða þetta. Manni dettur í hug hestar eins og maður sá í bíómyndum, af því að ég er ekki svo gamall að ég muni eftir einhverjum svona dráttarklárum á Íslandi, sem voru með eitthvað fyrir augunum svo þeir sáu bara beint áfram. Þannig finnst mér hv. þingmenn margir hverjir vera sem reka þetta mál áfram. Þeir geta hvorki litið til hægri né vinstri, vegna þess að það er búið að setja stefnuna.

Hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson svaraði ekki því í andsvari við mig áðan, ég hygg hann ætli að koma upp í andsvar við mig sem betur fer og hann svarar því kannski núna hvort hann kannist við það að í Norræna húsinu hafi starfsfólk Landspítalans staðið upp, kallað fram í og sagt að því væri bannað að tjá sig um annað en að Landspítalinn ætti að rísa við Hringbraut. Það er til upptaka af þessum fundi. Ef hv. þingmenn hafa ekki verið að hlusta á fundinum þá er alveg hægt að horfa á þetta þar og hlusta.

Ég velti því fyrir mér, hæstv. forseti, hvort ástæða er til að skoða það mál sérstaklega. Ég held að ég hafi áður sagt það í ræðustól. Ég er bara ekki enn þá búinn að hugsa það eða finna leiðina til þess hvort það sé ástæða til að rannsaka það hvernig stjórnarháttum á Landspítalanum er háttað. Er það virkilega þannig að starfsfólki sé bannað að tjá sig? Það er rosalega alvarlegt ef það er þannig, herra forseti, það er mjög alvarlegt.

En ég segi enn og aftur: Það er ekkert hættulegt við þessa tillögu. Það er ekkert hættulegt við hana. Það mun ekki tefja neitt fari menn í þetta mál. En auðvitað getur það tafið villtustu drauma hv. þingmanna sumra hér og ráðherra ef niðurstaðan verður sú að þetta sé galið.