148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[17:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, auðvitað hef ég áhyggjur af því að við getum ekki gert þetta nógu hratt allt saman. Ég hef jafn miklar áhyggjur af því að sjúklingarnir þurfi að ferðast á milli eins og er í dag og að það taki 10, 15 eða jafnvel 20 ár að klára Landspítalann við Hringbraut, ef það er það sem menn ætla að halda áfram með og ana út í. Auðvitað hefur maður áhyggjur af því.

Við erum á þeim stað í dag að við þurfum að byggja nýtt þjóðarsjúkrahús. Þá þurfum við að vanda okkur og við þurfum að taka ákvörðun. Ég kann ekki, hv. þingmaður, að meta það hvort er alvarlegra eða verra fyrir sjúklingana að vera í hávaða og látum og í ryki og ónýtum húsum við Hringbraut en að vera á þessum rúnti þar á milli, ég bara get það ekki. Ég veit hins vegar að ef við ætlum að horfa til framtíðar þá förum við ekki út í þetta verkefni við Hringbraut.

Ég spurði heldur ekki hvort hv. þingmaður hefði orðið var við þöggun. Ég spurði hvort hann kannaðist við starfsfólkið sem stóð upp á fundinum í Norræna húsinu og talaði um þöggun.