148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[17:39]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, í þriðja sinn: Ég heyrði í því starfsfólki sem talaði á þessum fundi. Nú vona ég að hv. þingmaður skrifi það hjá sér að ég hafi svarað þessari spurningu því að ég kannaðist við þessa orðræðu af hálfu þessara starfsmanna. Eins og áður hefur komið fram í mínum andsvörum hef ég ekki orðið var við þetta innan spítalans, ég hef aldrei fundið fyrir því, og hef ég þó verið tiltölulega áberandi í opinberri umræðu, bæði með málefni spítalans almennt og heilbrigðismál yfirleitt. Þannig að hefðu verið einhverjir þöggunartilburðir innan sjúkrahússins eða innan spítalans þá finnst mér ekkert ólíklegt að það hefði á einhverjum tímapunkti borist til mín eða mér hefði verið bent á að ég ætti kannski ekki að segja þetta eða hitt. Slíkt hefur aldrei gerst. Ég þekki ekki starfsmenn, aðra en þá sem töluðu á umræddum fundi, sem segjast hafa orðið fyrir slíku. Að minnsta kosti hef ég ekki umgengist þá starfsmenn í gegnum tíðina og hef þó unnið á þessu sjúkrahúsi í hartnær 20 ár.