148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[17:46]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar við Píratar lögðum fram tillögu okkar um endurskoðun á vímuefnastefnu á sínum tíma lögðum við til starfshóp sem samanstóð af ýmsum aðilum. Gagnrýnin sem við fengum úr okkar röðum snerist að stóru leyti til um það hvaða fólk við værum að velja í þennan starfshóp. Þannig tiltókum við landlæknisembættið, SÁÁ, ríkislögreglustjóra og embætti sem stuðningsmenn tillögunnar upplifðu sem mótfallna henni og vildu þess vegna ekki hafa í starfshópnum. Við svöruðum því, réttilega að mínu mati, að það væri einmitt vegna þess að þessir aðilar væru á öndverðum meiði sem við þyrftum að hafa þá með, til að geta skilað niðurstöðu sem væri nokkurn veginn sameiginleg. Og þótt skipið færi ekki mjög hratt á þann áfangastað sem við kærum okkur um hefði því alla vega verið snúið í rétta átt. Það tókst. Það mál hefur nú tafist vegna sífelldra kosninga, það er önnur saga.

Ég nefni þetta vegna þess að hv. þingmaður nefndi að hann vildi alls ekki hafa stjórn Landspítalans og elítuna, eins og hann kallaði það, með. Með hliðsjón af þessari stuttu dæmisögu velti ég því fyrir mér hvort þetta (Forseti hringir.) hafi einhver áhrif á skoðanir hv. þingmanns á því.