148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[17:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það geta verið erlendir sérfræðingar, það geta verið innlendir sérfræðingar. Það geta verið læknar og hjúkrunarfólk frá Akureyri og Neskaupstað. Það getur verið fólk sem hefur þekkingu á heilbrigðisgeiranum en er ekki búið að innvikla sig mikið inn í þessa umræðu. Það er það sem ég er að tala um, að við reynum að gæta þess að þeir sem koma að þessu máli séu fyrst og fremst sérfræðingar og meti þetta út frá því hvað er hagkvæmast, hvað er fljótlegast, hvað er best til lengri tíma litið, hvernig við náum sem mestu út úr þeirri framkvæmd sem við þurfum að fara í. Hvernig tryggjum við áframhaldandi gott heilbrigðiskerfi á meðan verið er að byggja, hvar sem það verður gert og allt slíkt? Það er það sem ég er að fara með þessum orðum mínum.

Hv. þingmaður spyr út í þessi rök um fagmennsku. Það er enginn að ásaka neinn um að hafa ekki verið faglegur né neitt þess háttar. Það sem skiptir máli er að fólk sé tilbúið til að skoða málið, það er það sem við erum að horfa á. Það þarf fagaðila til þess að fara ofan í hlutina. Við vitum alveg að það er fullt af fólki sem segir bara: Það er búið að taka þessa ákvörðun. Hættum að tala um þetta. Það finnst mér ekki eiga við.