148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[17:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hugsa að almennt sé það viðurkennt að það sé dýrara að byggja inni í miðri byggð eins og þarna er en að geta fengið nóg landrými og frelsi til að athafna sig og þess háttar, að ekki þurfi að taka tillit til ryks eða þungaflutninga, hávaða og alls þess. Tölurnar þekki ég ekki, hversu miklu munar. Við vitum þó að það hefur orðið gríðarleg hækkun á fasteignaverði í 101 Reykjavík og á því svæði, lóðir eru dýrmætari, verðmætari en þær voru fyrir tveimur árum. Sama gildir um fasteignir. Mér finnst því alveg sjálfsagt að menn fari í það minnsta og reikni þessa hluti og stærðir allar upp aftur.

Ég held líka að miðað við þær lýsingar sem maður hefur heyrt frá sérfræðingum sem þekkja til svona bygginga, til umferðar og slíks, að íbúar þarna í nágrenninu, ekki endilega við göturnar við spítalann heldur í næsta nágrenni, (Forseti hringir.) eigi eftir að kvarta sáran yfir því sem þeir eiga í vændum.