148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[17:54]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Umræddur aðili sem var að ræða þessa hluti er að byggja í miðbænum. Hann talaði um að erfitt væri að vinna þar, aðallega út af aðkomu, að koma efni á staðinn og koma efnum burtu. Fyrir utan það væri líka erfitt að athafna sig á svæðinu vegna umferðar, nálægðar annars húsnæðis og ýmislegs þess háttar.

Annað hefur valdið mér áhyggjum í þessu efni, þ.e. að við erum búin með sjúkrahótelið núna en þar er allt komið í tóma vitleysu. Það er farið að leka. Klæðningin virkar ekki, það var eitthvert vandamál með hana. Þegar er farið að tala um lekavandamál og það er ekki einu sinni byrjað að nota húsið. Einhver benti strax á að þarna gæti orðið sveppavandamál fljótlega í framtíðinni. Það skelfir mig vegna þess að það eru sveppavandamál í gömlu húsunum. Þetta virðist vera einhvern veginn vera klúður. Ég hef áhyggjur af því að klúðrið haldi bara áfram.