148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[17:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Verði það niðurstaðan að menn haldi verkinu áfram við Hringbraut vonum við auðvitað að það gangi vel. En fyrir liggur að það þarf að flytja gríðarlega mikið efni til og frá staðnum, svo dæmi sé tekið. Sá sem hv. þingmaður vitnar til hefur örugglega meiri þekkingu á því en sá er hér stendur. En síðan hefur reynslan kennt þeim er hér stendur, eftir að hafa verið í sveitarstjórn og ákveðið að gera upp gamla byggingu, að þegar maður fer út í það er eins gott að kunna margföldunartöfluna vel því að það hækkar allt, það breytist allt. Það virðist vera nákvæmlega sama hversu vel maður reynir að undirbúa verkið, það kemur alltaf eitthvað upp á sem ekki er hægt að gera ráð fyrir, nema menn séu svona rosalega magnaðir þegar kemur að þessu Hringbrautarverkefni að gert sé ráð fyrir því öllu saman.

Hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kom ágætlega inn á söguna varðandi það hvernig menn hafa verið að flýja mygluð og hálfónýt hús hér í borginni undanfarin ár. En þarna virðast menn hins vegar vera með einhver önnur viðmið.