148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[17:57]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég byrja á að þakka fyrir þá áhugaverðu umræðu sem átt hefur sér stað hér í dag. Hún er eins og svo mörg umræðan að hún verður áhugaverðari eftir því sem lengra er haldið. Mér fannst fínt að heyra ræðu frá hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni, sem er á móti tillögunni sem við ræðum hérna, því að mér finnst vanta svolítið málsvara þeirrar afstöðu í umræðunni. En hver veit nema það lagist við 2. umr.

Ég verð að viðurkenna að ég er sko langt frá því að vera sérfræðingur í þessu máli. Það er fullt af hlutum á bak við það sem fólk talar um hérna sem ég þekki hreinlega ekki, en ég er þó búinn að hlusta nógu mikið á umræðuna og lesa mér til um forsögu málsins til þess að telja mig geta haldið um það stutta ræðu.

Þá ætla ég að byrja á að lesa stefnu Pírata í málaflokknum um staðsetningarval nýs Landspítala sem samþykkt var 27. mars 2016. Hún er sem sé ekki ýkja gömul miðað við mörg önnur stefnumál okkar. Með leyfi forseta:

„Gerð verði opin, fagleg staðarvalsgreining á helstu mögulegum staðsetningum nýja Landspítalans, á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstöður verði birtar þannig að glögglega megi sjá hvernig einstaka matsþættir koma út sem og heildarmat á hverri staðsetningu. Þegar mat á einstökum staðsetningum liggur fyrir verði landsmönnum falið að velja milli þeirra bestu í vandaðri viðhorfskönnun eða þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Eins og ég sagði í þeim atkvæðagreiðslum er ég mótfallinn því að halda þjóðaratkvæðagreiðslur nema þegar þjóðin eða kjósendur sjálfir biðja um það. Ég er ekki á þeirri skoðun að þjóðaratkvæðagreiðslur séu eitthvert tæki sem stjórnmálamenn eigi að nota til þess að græða aukapunkt í umræðunni eða til þess að vekja athygli á hugðarefnum sínum. Ég flyt það beinustu leið yfir á stjórnmálaflokkana. En sem betur fer fjallar stefnan um að velja milli bestu tillagnanna annaðhvort í þjóðaratkvæðagreiðslu eða með því að leggja fram vandaða viðhorfskönnun, sem ég hygg að sé mun nærri lagi.

Eins og gefur að skilja út frá stefnu Pírata aðhyllist ég málið og er hlynntur því. Það þarf mikið til að breyta skoðun minni á því, það þyrfti að vera eitthvað sem fengi mig til þess að sveigja út frá því sem flokkur minn hefur ákveðið, t.d. grunnstefna Pírata eða ríkir almannahagsmunir eða eitthvað því um líkt, sem ég get svo sem gefið séns en er ekki sannfærður enn.

Í þessari umræðu allri virðist vera ágreiningur um staðreyndir. Staðreyndaágreiningur finnst mér almennt vera mjög áhugavert fyrirbæri. Það er í sjálfu sér ekki mjög áhugavert að við séum ósammála um gildismat eða viðhorf eða nálganir eða aðferðafræði eða eitthvað því um líkt, en þegar við erum ósammála um staðreyndirnar finnst mér eins og það hljóti að vera hægt að finna út úr því. Þess vegna er svo áhugavert þegar það virðist ekki vera tilfellið. Ég hef heyrt dæmi, m.a. í dag, um að skýrslurnar bendi allar meira eða minna til Hringbrautar. En svo segja aðrir að það sé ekki rétt. Það hlýtur að vera staðreyndaspurning sem ég get ekki svarað hér en mér finnst áhugaverð.

Það virðist líka vera staðreyndaágreiningur í sambandi við áhrifin af því að bíða með að byggja meðferðarkjarnann. Svo má vera að það hafi einhver óviðunandi neikvæð áhrif á aðgengi Íslendinga að heilbrigðisþjónustu. Það er eitt af því sem ég þekki hreinlega ekki nógu vel til að dæma um hér og nú, en mér finnst áhugavert að ágreiningur sé um það á þessu stigi málsins.

Ég vil nefna eitt sem aðeins hefur verið tæpt á í dag, reyndar svolítið mikið, það eru viðhorf einstakra þingmanna til þeirrar vinnu sem þegar hefur átt sér stað. Hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson fór aðeins yfir greinargerðina, nánar tiltekið 4. mgr. hennar, sýnist mér. Ég les upphafsorð greinargerðarinnar, með leyfi forseta:

„Meginmarkmið þessarar tillögu er að gerð verði óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýja þjóðarsjúkrahúsið. Gera þarf faglega staðarvalsgreiningu til að sjá hvar hagkvæmast og best væri að byggja nýtt þjóðarsjúkrahús.“

Svo er haldið áfram. Ég sé að hægt er að lesa þetta þannig að þarna sé á einhvern hátt verið að gera lítið úr þeirri vinnu sem þegar hefur verið unnin, þ.e. að hún sé ekki fagleg eða að hún sé unnin af einhverjum annarlegum hvötum. Það er hægt að lesa hana þannig. Það þarf hins vegar ekki að lesa hana þannig og ég kýs að gera það ekki. Mér heyrist samt svolítið talað þannig en samt svolítið ekki. Ég er ekki alveg kominn með á hreint hvar fólk ætlar að staðsetja sig gagnvart hvötum og faglegheitum í þeirri vinnu sem þegar hefur verið unnin. Það virðist þó sem betur fer ekki vera ágreiningur um að vinnan eigi að vera fagleg, það virðist vera samhugur um það, sem er gott.

Ég þarf sjálfur ekki neinar annarlega hvatir eða ófagleg vinnubrögð til þess að trúa alls konar mistökum upp á blessað kerfið og alls konar vitleysislegum ákvörðunum. Það er af nógu að taka. Ég hefði ekki boðið mig fram til Alþingis fyrir þennan flokk ef ég treysti kerfinu of mikið vegna þess að við erum til að miklu leyti vegna þess að við teljum kerfið ekki vera megnugt og ekki burðugt til þess að leysa mörg nútímavandamál. Það er auðvelt að gera mistök, sér í lagi þegar traustið er byggt á jakkafötum, útliti og tilteknum talsmáta. Það er svo sem önnur saga.

Mig langar aðeins að fjalla hér um orð sem fallið hafa um meinta þöggun í málaflokknum. Hér hafa þingmenn staðið upp, eins og hv. þm. 6. þm. Suðvesturkjördæmis, Gunnar Bragi Sveinsson, og lýst því þegar fólk stendur beinlínis upp á fundi og segir frá því að það hafi orðið fyrir þöggun. Þegar slíkt gerist finnst mér afskaplega erfitt að hunsa það, vegna þess að ef fólk upplifir þöggun þá er það þöggun. Kannski ætlaði enginn að þagga niður í því, en ef fólk segir frá því í máli eins og þessu fæ ég ekki betur séð en að það hljóti að vera satt, óháð því hvort það er tilgangur með einhverjum orðum einhvers yfirmanns og vilji hans eða ekki. Fyrir utan það hygg ég reyndar að við búum í óttalegu þöggunarsamfélagi, sem er reyndar ekki það sem mér mundi detta fyrst í hug við að lesa kommentakerfi fjölmiðlanna eða umræður á internetinu almennt ef út í það er farið, en ég held samt að þöggun sé ótrúlega rótgróinn hluti af sögulegri menningu okkar. Ég á ekki í neinum vandræðum með að trúa því að hún fyrirfinnist í þessu málefni með hliðsjón af því hversu heitar og miklar tilfinningar eru gagnvart því. Enda er um heilbrigðiskerfið okkar að ræða svo það er svo sem ekki skrýtið.

Mig langar aðeins að fara yfir þingsályktunina sem samþykkt var 16. maí 2014, sem við töluðum aðeins um áðan og ég talaði um við hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Ég fletti henni upp á meðan hv. þingmaður hélt ræðu sína og langar því að halda því til haga að það er rétt sem komið hefur fram að upprunalega tillagan, eins og hún var lögð fram, fjallaði um nýjan Landspítala við Hringbraut. Henni var breytt í meðferð þingsins á þá leið að fólk sem vill fá nýjan Landspítala annars staðar gæti sætt sig við orðalagið. Þannig að þótt 56 eða 57 þingmenn, minnir mig, hafi greitt atkvæði með þeirri tillögu, þar á meðal hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og reyndar allir viðstaddir, finnst mér það engin mótsögn við þessa tillögu. Mig langar að halda því til haga vegna þess að það fannst mér ekki vera alveg skýrt í umræðunni okkar áðan. Ég ber að hluta til ábyrgð á því.

Það er annað sem ég vil nefna, mér finnst aðeins of mikið um það í þessari umræðu að verið sé að reyna að góma þingmenn og ýjað að því að þeir hafi einhverjar ljótar skoðanir. Reynt er að góma þá þingmenn sem eru hlynntir þessari tillögu og gefið í skyn að þeir vilji tefja ofboðslega nauðsynlegt verk. Sömuleiðis er reynt að góma hina og segja þá vilja að einhverjir 100 milljarðar fari bara í vaskinn eða að þeir hafi skoðanir sem séu á einhvern hátt óboðlegar.

Í skipulagsmálum sem þetta mál flokkast undir þegar allt kemur til alls, finnst mér svolítið skrýtið að svo mikið sé um ásakanir á víxl nema kannski með hliðsjón af því hversu lengi þetta mál hefur verið til umræðu og hvað fólk hlýtur að vera orðið þreytt á því að finnast það þurfa að endurtaka sig, sem er mjög pirrandi til lengdar, ég þekki það nú manna best.

En það næstsíðasta sem mig langar að nefna er að þegar kemur að spurningunni um hvern eigi að velja í verkið held ég að það væri gott fyrir málið að það væru erlendir sérfræðingar, þótt ég sé ekkert endilega að kvitta undir þá tillögu að hér séu sérfræðingar of innlimaðir í þetta eða hvað eina, ég þekki það hreinlega ekki. Ef ég segi alveg eins og er, virðulegi forseti, þá er mér eiginlega sama. Ég vil bara lausn á vandamálinu. Ég nenni ekki að finna út úr því hvað er hverjum að kenna öllum stundum. Lausn á því væri að hafa erlenda sérfræðinga, þetta er nú ekki fyrsti spítalinn sem hefur verið byggður í borg, svo mikið er víst.

Síðast en ekki síst langar mig hérna að nefna eitt á þeim örfáu sekúndum sem ég á eftir. Mig langar til að gera stutta tilraun með fólki sem hefur þekkingu á efninu, en kannski þó nokkra reynslu af því að rökræða það. Mig langar að biðja það að hafa samband við mig vegna þess að mig langar að gera tilraun með vefsvæði sem snýst um að setja upp rökræðu í kerfi. Það heitir kialo.com og er erlent tilraunaverkefni, mjög áhugavert dót. Mér finnst þetta málefni eitthvað svo kjörið til þess að spreyta sig á þar þar sem hægt er að meta rök með eða á móti og greina með mjög skemmtilegum og myndrænum hætti. (Forseti hringir.) Ég hef víst ekki meiri tíma til að tala um það. En ef einhvers staðar er fólk sem hefur reynslu af (Forseti hringir.) rökræðu um þetta mál bið ég það endilega að hafa samband við mig til að taka þátt í þeirri tilraun. Ég held að það gæti alla vega verið skemmtilegt ef ekki hreinlega gagnlegt.