148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

tekjuskattur.

108. mál
[18:07]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, um skattleysi uppbóta á lífeyri. Meðflutningsmenn mínir eru Inga Sæland, Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson.

Breytingartillagan er sú að við 28. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: „Uppbætur á lífeyri skv. 1. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð.“

Með frumvarpinu er lagt til að uppbót á lífeyri vegna kostnaðar, sem ekki fæst greiddur eða bættur að öðru leyti, til lífeyrisþega sem ekki getur framfleytt sér án hennar, samanber 1. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, og uppbót til hreyfihamlaðs elli- eða örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega vegna reksturs bifreiðar, samanber 2. mgr. 10. gr. sömu laga, verði undanþegin skattskyldu samkvæmt lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003.

Ef við kíkjum á 1. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, er þarna um að ræða umönnunarkostnað sem heimilishjálp eða aðrir opinberir aðilar greiða ekki. Einnig er þarna sjúkra- og lyfjakostnaður og kostnaður vegna kaupa á heyrnartækjum sem sjúkratryggingar greiða ekki. Þá er húsaleigukostnaður sem fellur utan húsaleigubóta þarna inni líka. Vistunarkostnaður á dvalarheimilum, stofnunum svo og sambýlum og áfangastöðum sem fengið hafa starfsleyfi frá ráðuneytinu eða reka sambærilega starfsemi eru þarna undir og rafmagnskostnaður vegna súrefnissíunotkunar.

Uppbót vegna reksturs bifreiða fyrir hreyfihamlaða, samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð, er þarna einnig undir.

Ólíkt örorkulífeyri miðar slík uppbót ekki að því að bæta launamissi vegna skertrar vinnugetu heldur að því að koma til móts við sérstök útgjöld lífeyrisþega. Það markmið næst augljóslega ekki ef stór hluti uppbótarinnar er tekinn í skatt. Skilgreining hennar sem skattskyldar tekjur hefur enn fremur keðjuverkandi áhrif því að hún skerðir fyrir vikið aðrar bætur til tekjulágra lífeyrisþega, svo sem húsnæðisbætur, sérstakan húsnæðisstuðning og barnabætur.

Hvað erum við þá að tala um í þessu samhengi? Við erum að tala um að leggja til styrk. Við getum tekið dæmi af styrk vegna bifreiðar upp á 15 þús. kr. sem er yfirleitt styrkurinn þar. Af honum þarf að borga 5 þús. kr. í skatt. Þá eru 10 þús. kr. eftir. Heildartekjurnar sem koma út úr þessu eru um 180 þús. kr. á ári sem leggjast ofan á það sem örorkulífeyrisþegar og eldri borgarar eða lífeyrisþegar eru með yfir höfuð. Þetta hefur áhrif á húsnæðisbætur, sérstakar húsnæðisbætur og barnabætur. Það er ekki bara 5 þús. kr. skattur sem kemur þarna heldur verða skerðingar sem fólk áttar sig oft ekki á. Maður hefur á tilfinningunni að verið sé að búa til styrktarkerfi þar sem við ætlum að rétta einhverjum styrk sem þarf virkilega að nota hann, sérstaklega t.d. í lyfjamálum, með vinstri hendinni en rífum hann af með þeirri hægri. Og það sem kannski er skelfilegast er að maður hefur séð dæmi um að það er rifið svo illa með hægri hendinni að fólk lendir í mínus, fólk tapar á því að taka við svona styrkjum.

Þá spyr ég: Er það hlutverk Alþingis að vera með svoleiðis lög? Til hvers í ósköpunum erum við yfir höfuð að styrkja fólk til lyfjakaupa og annarra hluta ef það skaðar fólk?

Samkvæmt upplýsingum sem flutningsmenn hafa aflað sér fengu 1.245 einstaklingar samtals 203 millj. kr. árið 2016 í uppbætur samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð og greiddu af þeim 46 millj. kr. í tekjuskatt. Það voru 5.750 einstaklingar sem fengu samtals rúman 1 milljarð í uppbætur samkvæmt 2. mgr. sömu greinar og greiddu af því rúmar 229 millj. kr. í tekjuskatt. Við erum að tala um 280 millj. kr. í skatt. Ríkissjóður verður því ekki af verulegum skatttekjum verði breytingarnar að veruleika. Lífeyrisþegar sem bera mikinn kostnað vegna fötlunar eða sjúkdóma fyndu aftur á móti verulega fyrir breytingunum.

Ef við horfum aðeins á hvernig þetta skiptist eru útgjöld ríkisins vegna fyrri hópsins, 1.245 einstaklingar, um 203 milljónir. Þegar kemur að bifreiðastyrkjunum, uppbót vegna reksturs bifreiða, eru ellilífeyrisþegar 3.255, örorkulífeyrisþegar 2.489 og örorkustyrksþegar sex. Þetta eru samtals 5.750 einstaklingar. Þessar tekjur skipta þessa einstaklinga miklu máli. Við verðum að átta okkur á að uppbætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð bæta ekki launatap. Hugtakið örorka merkir skert færni og geta til að vinna vegna sjúkdóma, fötlunar eða slysa, samanber 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Í samræmi við það byggir örorkulífeyrir á því að bæta launamissi vegna skertrar vinnugetu. Þannig er örorkulífeyrir og tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar miðaður við skerta vinnugetu. Þær greiðslur sem einstaklingur fær á grundvelli laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, eru aftur á móti af allt öðrum toga. Þær eru ekki ígildi launa eða bætur fyrir launamissi heldur er um uppbætur að ræða til þess að koma til móts við sérstök útgjöld á grundvelli sérstakra aðstæðna.

Með því að uppbætur og styrkir og aðrar greiðslur til að mæta kostnaði vegna sjúkdóma og fötlunar, skerðinga eða sérstakra aðstæðna sem eru skattskyldar, fær sá sem þarfnast þeirra í fyrsta lagi ekki nema um 60% af uppbótinni sem metið hefur verið að hann þurfi til að mæta kostnaðinum. En þessi 60% uppbót er ekki rétt vegna þess að hún skerðir aðrar bætur, þar koma inn húsaleigubætur, sérstakur húsnæðisstuðningur, allar bætur sem merktar eru sem tekjur hjá örorkulífeyrisþegum eru skertar einhvers staðar. Þetta er keðjuverkandi skerðingarkerfi. Þess vegna er alveg skelfilegt þegar verið er að greiða svona styrki að það er aldrei athugað hvaða afleiðingar það hefur, hvað skilar sér til viðkomandi og hvað fer í skerðingar.

Ég get tekið sem dæmi húsaleigubætur. Á sínum tíma fékk ég 30 þús. kr. í húsaleigubætur á mánuði þegar ég var á leigumarkaði. Síðan datt ég niður í 15 þús. kr. og síðan niður í núll. Hvað skeði þarna? Jú, lífeyrissjóðstekjurnar mínar hækkuðu. En þegar lífeyrissjóðstekjurnar hækkuðu lækkaði ég hjá Tryggingastofnun ríkisins. Innkoma mín varð ekkert meiri en þessi millifærsla varð þess valdandi að húsaleigubæturnar hurfu. Hvers vegna var það? Vegna þess að hækkun á lífeyrissjóðsgreiðslum skerðir húsaleigubæturnar en hækkun á bótum Tryggingastofnunar gerði það ekki. Hjá einstaklingi í svipaðri aðstöðu og ég en sem hafði engar lífeyrissjóðsbætur, þá lækkuðu ekki húsaleigubætur hjá honum, þær hækkuðu. Hann fór upp í 50 þús. kr. og í 70 þús. kr. Á endanum var einstaklingum með lífeyrissjóðsgreiðslur refsað í sjálfu sér svo grimmilega að þeir voru látnir tapa jafnvel 50–70 þús. kr. á mánuði.

Svona kerfi er óskiljanlegt, að það skuli vera við lýði slíkt kerfi gagnvart lyfjakaupum og jafnvel rafmagnskostnaði vegna súrefnissíunotkunar. Þetta er óskiljanlegt í því samhengi ef við skoðum hvað er undir þegar við tölum um skatta. Í 28. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, eru íþróttastyrkir, þeir eru ekki skattaðir. En lyfjastyrkir eru skattaðir. Súrefni og rafmagn til súrefnissíu er skattað. Húsaleigukostnaður sem fellur utan húsaleigubóta er skattaður. Ef við getum haft íþróttastyrki, sem er mjög gott að séu ekki skattaðir, hlýtur þetta pottþétt að eiga að vera þar inni og á ekki að vera skattað. Eins og segir líka í 28. gr, um það sem telst ekki til tekna:

„Húsnæðisbætur, sbr. lög um húsnæðisbætur, og sérstakur húsnæðisstuðningur …“

Styrkir úr starfsendurhæfingarsjóðum, sem starfræktir eru á grundvelli laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, sem ganga til greiðslu kostnaðar vegna endurhæfingar, heilbrigðisþjónustu og tiltekinnar þjónustu fagaðila. Ráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd þessa ákvæðis.“

Þetta er einfalt, við eigum að breyta þessu. Sérstaklega í því samhengi að þetta kostar mjög lítið og líka í því samhengi að þetta er svo illa gert.

Við verðum að átta okkur á því að í þessu kerfi er annað svolítið undarlegt. Við áttum okkur aldrei á því þegar maður lifir í þessu kerfi hverjar tekjur manns eru. Maður fékk ákveðnar tekjur mánaðarlega en síðan kom alltaf þessi skerðingardagur, skerðingardagurinn mikli var 1. ágúst, nú er hann 1. júlí. Þá koma skerðingarnar. Það sem var undarlegast við þær var að þær voru aldrei sundurliðaðar. Maður vissi ekkert hvað það var sem skerti tekjurnar. Ég var einhvern tíma að grafa ofan í þetta og það voru ótrúlegustu hlutir sem voru að skerða hjá manni tekjurnar og þá þarf maður að borga afturvirkt. Að vera í þessari aðstöðu sem margir hafa lent í og ég hef lent í sjálfur, að fá núll á seðlinum frá Tryggingastofnun ríkisins í heilt ár vegna þess að ég hafði fengið einhvers staðar tekjur í byrjun minnar örorku frá lífeyrissjóði, eftir þrjú ár, sem urðu þess valdandi að í heilt ár fékk ég núll. Með börn á heimili og vissi ekki um þetta. Það er fullt af fólki að lenda í þessari aðstöðu. Þetta er enn í gangi í dag.

Þess vegna segi ég: Við verðum að stokka upp þetta kerfi og þetta er bara smá skref, lítið skref, í því, hænuskref til að breyta þessu kerfi, hvernig það er spillt og hvernig það er upp sett. Ég vona að þetta fari í gegn og verði fyrsta skrefið í því að gera kerfið réttlátt og fari að gera það sem það á að gera, vera mannúðlegt og vera fyrir þá sem á því þurfa að halda.