148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

tekjuskattur.

108. mál
[18:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu og fyrir þetta þingmál, sem ég held að sé hið besta mál. Hv. þingmaður svaraði reyndar hálfpartinn í síðustu setningu sinni hér í ræðustól spurningunni en ég ætla nú samt að láta mig hafa að koma með hana. Spurningin sem var að brjótast um í kollinum á mér var þessi: Er þetta ekki bara hænuskref? Er þetta ekki bara eitt af mjög takmörkuðum hlutum sem verið er að breyta hér sem þarf í raun að breyta og laga út frá allri þessari víxlverkun, skerðingum og slíku? Það er verðlaunað með vinstri og refsað með hægri, eins og hv. þingmaður orðaði það eða gaf í skyn hér áðan. Þess vegna langar mig að fá hv. þingmann til að segja mér að þetta sé bara eitt skref af mörgum sem þarf að stíga til að gera þetta kerfi okkar réttlátara. Maður hefur heyrt þessar sögur, séð dæmin um það sem manni finnst óréttlátt í þessu öllu saman. En það eru hins vegar forréttindi að fá að heyra þetta svona skýrt og vel útskýrt eins og hv. þingmaður gerði hér. Eftir stendur þessi spurning, sem hálfpartinn var svarað áðan, hvort þetta sé ekki bara eitt af mörgum skrefum sem við þurfum að stíga.