148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

tekjuskattur.

108. mál
[18:22]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Jú, eftir að hafa lifað í þessu kerfi í nær 27 ár, ég þarf nú að hafa vitni að því hversu lengi ég hef lifað í þessu kerfi, hef ég kallað þetta refsikerfi mannvonskunnar. Ég held að ekki sé hægt að gera neitt annað en að núllstilla þetta kerfi og byrja upp á nýtt. Það er búið að stagbæta það svo að ég held að ekki sé hægt að bæta meira í því. Ekki án þess að refsa þá einhvers staðar annars staðar. Ég var í endurskoðunarnefnd almannatrygginga á sínum tíma þegar sérfræðingur kom frá Tryggingastofnun ríkisins og ég hélt að hann myndi vita allt um þetta kerfi. Það sló mig þegar hann sagði: Það er enginn sem veit allt um þetta kerfi.

Við erum eiginlega komin með tölvu, liggur mér við að segja, sem segir: Nei. Það er mjög erfitt að fara að rökræða við hana. Þegar við erum komin á þann stað að það er ekki neinn mannlegur einstaklingur sem getur fylgst með þessu og tekið á þessu kerfi eigum við að segja: Hingað og ekki lengra. Stopp, nú byrjum við upp á nýtt. Og búa til þannig kerfi að það sé í lagi að fá lyfjastyrki. Því þeir sem fá þessa styrki til að kaupa lyf þurfa á þeim að halda. Þeir eru með gífurlegan kostnað út af lyfjum, ég hugsa alveg fáránlegan kostnað. Ég segi fyrir mitt leyti: Það er nógu erfitt að vera veikur, nógu erfitt að þurfa að taka öll þessi lyf, en það hlýtur að vera ömurlegt að hafa síðan ekki fjárhagslega efni á að lifa. Til hvers er þá verið að láta fólk fá öll lyfin, styrkina, ef það á síðan ekki að geta lifað af fjárhagslega?