148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

tekjuskattur.

108. mál
[18:29]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að byrja á að segjast ekki ætla að lengja þessa umræðu vegna þess að þá nýtir maður auðvitað allan tímann, eins og frægt er orðið. En ég verð að koma aðeins upp og þakka fyrir þetta frumvarp, þakka Flokki fólksins fyrir þetta frumvarp sem og athyglina sem sá flokkur sýnir málaflokknum og metnaðinn sem hann sýnir með því að leggja fram mál til að laga kerfið. Eins og ég fór yfir í andsvörum mínum við hv. þingmann áður hef ég eins og aðrir þingmenn frá því að ég fyrst tók sæti hérna fengið fréttir af ótal málum og alls konar vandamálum sem ég hafði þá engan skilning á. Núna hef ég nokkurn skilning á ýmsum þáttum þessa kerfis en eins og hv. þingmaður nefnir, réttilega að mínu mati, skilur enginn þetta kerfi algerlega. Gaman er frá því að segja að einhvern tíma var okkur sagt að það væri ein manneskja á landinu sem skildi kerfið. Við fengum þá manneskju á fund í velferðarnefnd en hún sagðist ekki heldur skilja það að fullu. Þannig fór sá draumur að til væri ein manneskja sem skildi kerfið frá frá A–Ö. Svo virðist ekki vera.

Ég öðlaðist sjálfur áhuga á almannatryggingakerfinu við að senda inn það sem ég taldi frekar sakleysislega fyrirspurn. Hún sneri að umkvörtunarefni sem ég hafði heyrt mjög oft á þeim tíma, af því að árið 2009 var hætt að tengja hækkun á bótum við vísitölu neysluverðs út af hruninu. Þetta var eitthvað sem AGS heimtaði frá okkur til að sanna að okkur væri alvara með að taka til eftir hrunið, en það er löng og leiðinleg saga og allt það. Þetta var gert og eðlilega var fólk mjög ósátt við það. Ég sendi inn fyrirspurn til að komast að því hvað það hefði kostað ríkið ef breytingin 2009 hefði ekki verið gerð. Svarið var á sex blaðsíðum og á máli sem ég hreinlega skildi hvorki upp né niður í. Ég tók mér einhvern tíma kvöldstund og fór yfir þetta og fann orð sem ég kunni ekki og skrifaði þau niður. Ég man ekki alveg hversu mörg orðin voru, 12 eða 13, sem ég skildi ekki og þurfti að fletta upp til að öðlast einhvern skilning. Ég fékk takmarkaðan skilning á málinu þá en það fyrsta sem blasti við var að kerfið er svo flókið að óhætt er að segja að flækjustigið sjálft sé ófreskjan í kerfinu.

Mér sýnist stærsta og versta vandamálið við kerfið vera það hversu flókið það er og á hversu margan hátt það getur komið niður á fólki. Þegar við reynum að breyta því á einhvern ákveðinn hátt, ef það eru einhverjar verulegar breytingar, kemur það niður á stórum hópi fólks.

Þess vegna er svo dýrmætt þegar við komum auga á lagfæringar sem kosta ríkissjóð útgjöld eða valda tekjumissi að það séu einu fyrirsjáanlegu afleiðingarnar, að breytingarnar hafi ekki neikvæð áhrif á neinn hóp. Þess vegna þótti mér vænt um það þegar hv. þm. Björn Leví Gunnarsson lagði fram fyrirspurn sína, sem á uppruna sinn í grasrót Pírata, hjá meðlimi Pírata sem samdi fyrirspurnina. Þar spurðum við að því hvað það myndi kosta að hætta að skerða greiðslur úr almannatryggingum vegna tekna af ýmsu tagi og fengum mjög gott svar og gagnlegt. Úr því varð sú stefna og breytingartillaga sem við lögðum fram við umræðu um bandorminn svokallaða, breytingar á ýmsum lögum vegna fjárlagafrumvarps, um að hætta að skerða greiðslur almannatrygginga til ellilífeyrisþega á grundvelli atvinnutekna. Síðan kom þetta fína þingmál frá Flokki fólksins sem var sama efnis. Þar var í boði lagfæring sem kom ekki niður á neinum. Ég vona að það mál nái í gegn. Ég hlakka til að rökræða það betur og stend með Flokki fólksins í því góða og mikilvæga máli, kannski í ákveðnum glannaskap að mati sumra Sjálfstæðismanna en að mínu mati í algerlega meinlausa máli gagnvart ríkissjóði. Útgjaldaaukningin verður alla vega aldrei þannig að það borgi sig ekki. Það er alveg á hreinu.

En svo kemur þessi tillaga. Hún hefur einnig það gleðilega einkenni að koma ekki niður á neinum hópi. Það eru tvö önnur frumvörp sem við Píratar höfum lagt fram, sem einnig eiga uppruna sinn í grasrót Pírata. Þar er leið farin sem í raun og veru kostar meira en mönnum er vel við, vegna þess að útfærslan á ekki að koma niður á neinum. Við lendum svolítið í því ef við ætlum að einfalda kerfið, ef við ætlum að breyta því einhvern veginn en án þess að það kosti óheyrilegar fjárhæðir að þá verður það að koma niður á einhverjum hópi fólks. Við lendum aftur og aftur í slíkum vanda. Þetta er eitt af vandamálunum sem komu upp við einföldunina á ellilífeyriskerfinu í lok 2016 þegar, eins og frægt er orðið, frítekjumark var afnumið með tilheyrandi leiðindum. Sú breyting kom sumum vel, öðrum illa. En það góða við þá breytingu, með fullri virðingu fyrir öllum þeim sem fengu lægri greiðslur í kjölfarið á henni, var að hún einfaldaði kerfið. Ég vil meina að hún hafi einfaldað kosningabaráttuna, umræðuna í henni. Við gátum talað um þetta kerfi, eða afmarkaðan hluta þess, á einhvern hátt sem kjósandinn meira og minna skildi. Það er mjög erfitt enn þá þegar kemur að örorku og öllum örorkutengdum málefnum. Um leið og þú segir tekjutrygging eru flestir búnir að missa þráðinn, nema fólkið sem þekkir hana á eigin skinni. Og jafnvel það fólk er ekkert endilega með þetta á hreinu, eins og hv. þingmaður lýsti áðan kemur það fólki í opna skjöldu hvað hefur áhrif á greiðslurnar, sem er agaleg staða sem ég á erfitt með að gera mér almennilega í hugarlund hvernig er að vera í. Þetta er ömurleg staða og við eigum ekki að leyfa því að líðast.

Það er ýmislegt fleira í þessu kerfi sem við eigum að reyna að uppræta að mínu mati. Það eru hlutir eins og makatengingar og það fyrirbæri að vera að spyrja að því hvort fólk búi með öðrum, spyrja um persónulegar aðstæður. Mér finnst mjög óþægilegt að slíkar spurningar ráði eða hafi afgerandi áhrif á tekjur fólks. Ég hef starfað sem forritari alla mína fullorðinsævi og aldrei lækkaði ég í launum við það að finna mér maka. Laun mín lækkuðu aldrei við það að búa með einhverjum, sem ég hef oft gert, einmitt vegna þess að það er skynsamlegt fjárhagslega, og líka vegna þess að mér líkaði vel við það fólk og það var mjög skemmtilegt og mjög gaman að búa með því ef út í það er farið.

Ég er á móti því að persónuleg atriði stjórni mikilvægustu hlutunum í fjárhag fólks. En þá lendum við aftur í þessum vanda: Hvernig gerum við breytinguna án þess að það komi niður á einhverjum hópi? Húsnæðisuppbótin er eitt slíkt dæmi. Ég spurði að því fyrir einhverju síðan, og sennilega er svarið orðið úrelt núna í ljósi breytinga á kerfinu síðan þá, hvað það myndi kosta að hætta með húsnæðisuppbót en þó þannig að það kæmi ekki niður á neinum, fólk myndi frekar hækka, sem sagt ekki þannig að húsnæðisuppbótin færi bara heldur væri eins og allir væru með hana. Ég man ekki nákvæmlega hvert svarið var en það var eitthvað í kringum 8–10 milljarðar, sem er umtalsverð upphæð. Það er aldrei auðvelt að segja að þetta sé of mikið eða of lítið í þeim málaflokki en mér finnst mikilvægt að þegar við gerum breytingar stefnum við að því að draga úr hlutum eins og að ráðast inn í einkalíf fólks og spyrja hverjum það býr með og slíkt. Mér finnst það mjög óþægilegt, svo að ekki sé meira sagt.

Ég er kominn aðeins út fyrir efnið. Ég fagna þessu frumvarpi og sér í lagi því góða einkenni þess að koma ekki niður á neinum. Þetta er ekki breyting sem kemur niður á neinum. Þegar við finnum slík tækifæri sem kosta smáaura í samhengi við ríkissjóð eigum við að nýta þau og gera breytingarnar. Eins og gefur að skilja af ræðu minni er ég hlynntur málinu og vona að það nái í gegn, eins og önnur góð mál Flokks fólksins í málaflokknum.