148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

tekjuskattur.

108. mál
[18:38]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja fundinn mjög í ljósi þess hversu áliðið dags er orðið en sem einn af flutningsmönnum vil ég segja nokkur orð, kannski einna helst til áréttingar. 1. flutningsmaður fór mjög rækilega yfir frumvarpið, en áður en lengra er haldið hlýt ég að þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir ræðu hans sem einkenndist af þeirri gjörhygli sem hann hefur orðið kunnur að vegna starfa sinna. Það er sannarlega mikilvægt og ánægjulegt að hafa svo öflugan liðsmann í þeim baráttumálum sem við erum hér að beita okkur fyrir sem hv. þingmaður er og fleiri góðir þingmenn.

Innsti kjarni þessa máls er að við erum að fjalla um greiðslur til fólks sem vissulega stendur í flestum tilfellum höllum fæti og eru ákveðnar utan ramma almannatrygginga. Þær eru ákveðnar á forsendum laga um félagslega aðstoð. Það er eðlismunur á þeim greiðslum sem þarna um ræðir. Hér er um að ræða eins konar uppbætur eða styrki. Það var rakið af 1. flutningsmanni hvað um væri að ræða í því efni. En það er eðlisólíkt bótagreiðslum almannatrygginga sem ætlað er að bæta fyrir tekjumissi vegna missis á starfsorku, örorku og öðru slíku.

Þetta mál sem er út af fyrir sig ekki mjög stórt í eðli sínu dregur fram það umhverfi sem því fólki sem við erum að fjalla um hérna er í raun og sanni búið. Sá sem er í þeirri aðstöðu að taka við örorkubótum, sérstökum uppbótum, eins og hér um ræðir á grundvelli laga um félagslega aðstoð má sig hvergi hræra öðruvísi en að þurfa að þola þungar fjárhagslegar refsingar. Þær fjárhagslegu refsingar birtast sem skerðingar á hvers kyns uppbótum og bótum eins og hv. 1. flutningsmaður fór svo rækilega yfir í sinni ræðu. Sömuleiðis er ástæða til að nefna hið mikla ósamræmi sem er í þessu lagaumhverfi. Tökum dæmi: Eitt af þessu er greiðslur vegna kaupa á heyrnartækjum, annað er rafmagnsnotkun vegna notkunar á súrefnissíu. Slíkar greiðslur eru metnar sem tekjur hlutaðeigandi manni til handa og hann þá látinn þola að aðrar greiðslur sem hann á rétt á lögum samkvæmt skerðast.

Ég leyfi mér að segja að Alþingi hefur ákveðið tækifæri til að rétta hlut þess fólks sem á hlut að máli. Ég leyfi mér að vonast eftir víðtækum stuðningi við málið og að það nái fram að ganga.