148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

tekjuskattur.

108. mál
[18:42]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Ég er meðflutningsmaður að þessu frumvarpi til breytinga sem miða að því að rétta hlut öryrkja og lífeyrisþega að þessu leyti. Við í Flokki fólksins lítum á þetta frumvarp sem eitt af fyrstu skrefunum í þá átt að ráðast að því óréttláta kerfi sem öryrkjum og lífeyrisþegum er búið og þetta sé bara eitt af fyrstu skrefunum.

Hér er um það að ræða að fella niður skattlagningu á styrkjum sem hluti þessa hóps fær til að standa straum af kostnaði við sannarleg útgjöld sem þeir hafa vegna sjúkleika eða fötlunar sinnar, skattlagningu á styrkjum sem eru vegna útgjalda þeirra. Þetta frumvarp er því í raun leiðrétting á ákveðnum mistökum sem hljóta að hafa orðið. Þetta snertir tæplega 7 þús. manns. Og ekki nóg með að þessir styrkir séu skattlagðir með slíkum ósanngjörnum hætti heldur hefur það einnig önnur áhrif þar sem horft er á þessa styrki sem tekjur þeirra sem fá þá. Það hefur þau keðjuverkandi áhrif að bætur, eins og barnabætur og húsnæðisbætur, skerðast þá jafnframt. Þetta hefur keðjuverkandi áhrif. Er þetta sanngjarnt? Nei.

Við erum hér að tala fyrir hreinu réttlætismáli. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir sérstakan áhuga hans á þessu máli. Ég hefði auðvitað viljað sjá fleiri þingmenn hér í salnum, kannski suma þeirra sem á tyllidögum vilja tala með fagurgala við öryrkja. Hér eru einungis þingmenn Flokks fólksins og Miðflokksins, fyrir utan hæstv. forseta auðvitað.