148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég trúi ekki öðru en að mörgum hafi verið brugðið fimmtudaginn 25. janúar eftir að hafa lesið og hlustað á sögur kvenna af erlendum uppruna sem birtust í fjölmiðlum þennan dag í tengslum við átakið Í skugga valdsins. Ég var alla vega með æluna í hálsinum allt kvöldið.

Þó held ég að innst inni höfum við mörg haft grun um að ýmislegt af því sem þar kom fram viðgengist í okkar samfélagi. Það er bara svo miklu þægilegra að vita ekki af því. Þá losnar maður við ógleðina. Þennan dag fengum við sögurnar framan í okkur og þær voru hræðilegar. Þvílíkur kjarkur og hugrekki sem þær konur sýndu sem þarna stigu fram. Eins og fram kom þegar við ræddum samfélagsbyltinguna Í skugga valdsins í þingsal þann 19. desember sl. þarf fjölbreyttar leiðir til að vinna gegn kynbundnu ofbeldi og kynferðislegri áreitni. Það er mikilvægt að einstaklingar breyti hegðun. Þannig breytist menning. Það er líka mikilvægt að tryggja verkferla innan stjórnsýslunnar og að löggjafinn tryggi skilvirka löggjöf í kynferðisbrotamálum.

Oft er samt ekki nóg að tryggja lagalegan rétt. Vandinn er að þótt lagalegur réttur sé tryggður eru réttindin sem hann tryggir ekki alltaf sótt. Það á ekki síst við um konur af erlendum uppruna. Við sem samfélag verðum að finna leiðir sem virka til að vinna gegn kynbundnu ofbeldi gagnvart konum af erlendum uppruna, ekki síður en öðrum konum. Til þess þurfum við upplýsingar. Þær getum við sótt með rannsóknum og samstarfi við aðrar þjóðir. Ég skora á ráðherranefnd um jafnréttismál að taka stöðu þessa hóps til sérstakrar athugunar.

Hvernig náum við jafnrétti fyrir alla í landinu sem skorar hvað hæst á alþjóðlegum mælikvörðum um jafnrétti?