148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég vil byrja ræðu mína á varúðarorðum. Hér á eftir mun ég flytja frásagnir af alvarlegu kynferðisofbeldi. Við þingkonur vorum hvattar til þess að mæta svartklæddar í dag til stuðnings #metoo-byltingunni og er það vel. Af því tilefni vil ég lýsa yfir sérstökum stuðningi mínum við konur af erlendum uppruna sem deildu með okkur fyrir ekki svo löngu upplifun sinni af alvarlegu kynferðisofbeldi sem aftur á móti byggir oft á alvarlegu kynþáttahatri — hér á Íslandi. Ég vil því vekja athygli á tveimur af þeim 34 sögum sem birtust frá erlendum konum á dögunum, með leyfi forseta, fyrst frá einni sem á vinkonu sem flutti hingað með dóttur sína:

„Hún bjó með manni sem misnotaði 11 ára dóttur hennar kynferðislega og beitti hana ofbeldi, bæði andlegu og líkamlegu. Hún tilkynnti það til lögreglu en þau gerðu ekki neitt og buðu henni ekki einu sinni upp á túlkaþjónustu eða töluðu við dóttur hennar. Maðurinn hennar beitti hana mjög grófu ofbeldi, nauðgaði henni og hótaði að drepa bæði hana og dóttur hennar ef hún tilkynnti hann aftur. Eftir eitt ár var maðurinn ákærður fyrir annan glæp og fór inn á Litla-Hraun. Vinkona mín flúði út á land með dóttur sinni.“

Með leyfi forseta:

„Ein nótt var versta nótt lífs míns. Ég man að ég var að vinna en ég man ekkert meira þar til daginn eftir. Ég vaknaði líkt og einhver hefði keyrt vöruflutningabíl yfir allan líkama minn. Ég var ekki í neinum fötum og ég þekkti ekki þennan stað sem ég var á. Ég fer að panikka og maður sem ég þekki ekki einu sinni kemur og segir mér að vera ekki móðursjúk, allt sé í lagi, yfirmaður minn sé að koma og sækja mig. Hann kemur og sækir mig og tekur mig grátandi frá þessu húsi helvítis. Hann keyrir mig um í langan tíma og segir mér að slaka á, hann muni borga mér aukalega vegna þess að þetta kom fyrir mig en ég megi ekki segja frá þessu því að þá muni ég ekki getað klárað háskólann, þeir muni taka það af mér af því að ég vinn fyrir þá svart.“

Herra forseti. Hver er ábyrgð okkar á þessum sögum og öðrum þeim líkum? Jú, við getum brugðist tafarlaust við tilmælum ECRI-nefndarinnar um að setja á fót sérhæfða stofnun til þess að berjast gegn kynþáttafordómum og kynþáttamisrétti. Við getum stofnað miðstöð í Reykjavík í ætt við Fjölmenningarsetrið á Ísafirði svo innflytjendur hafi aðgang að þjónustu í Reykjavík og við getum samþykkt alhliða aðlögunarstefnu fyrir innflytjendur. (Forseti hringir.) En fyrst og fremst, herra forseti, getum við hlustað á raddir þessara kvenna, gert þær að okkar og léð máls á þeirra málstað hér sem og annars staðar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)