148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Virðulegi forseti. Á þingfundi í síðustu viku urðu þau tíðindi að meiri hlutinn, ráðherrar jafnt sem óbreyttir þingmenn, fylkti liði í þingsal til að fella í atkvæðagreiðslu beiðni hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar um skýrslubeiðni varðandi það hvernig ábendingum í rannsóknarskýrslum Alþingis hefði verið framfylgt.

Hv. þingmaður kynnti þingmönnum þessa skýrslubeiðni fyrst í maí sl. Eftir kosningar sl. haust lagði hv. þingmaður, skýrslubeiðandi, aftur fram beiðni um meðflutning fyrir nýtt Alþingi. Hann kynnti þá fyrir þingmönnum breytingar sem gerðar höfðu verið samkvæmt ráðleggingum sérfræðinga, að skýrslubeiðnin yrði nákvæmari, þ.e. henni yrði skipt upp á milli ráðherra og forseta Alþingis.

Skýrslubeiðnirnar urðu þar með þrjár, tvær til tiltekinna ráðuneyta varðandi ábendingar sem vörðuðu stjórnsýsluna þar og viðbrögð við þeim og sú þriðja til forseta Alþingis um viðbrögð við ábendingum í rannsóknarskýrslunum sem eiga við þingið.

Mér vitanlega komu ekki fram á þessum tíma, frá því í maí, ábendingar frá fimm þingmönnum sem í síðustu viku hlýddu kallinu og fundu þessu allt til foráttu, að verkefnið væri vissulega mjög þarft en það þyrfti bara að gera það einhvern veginn allt öðruvísi. Staðreyndin er sú að samantekt af þessu tagi er alla jafna unnin þannig að viðkomandi ráðuneyti svari spurningum sem þingið leggur fyrir. Það er það sem var verið að reyna að ná í gegn, ekki meira og ekki minna.

Ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar hefur á hveitibrauðsdögum sínum orðið mjög tíðrætt um stórsókn á ýmsum sviðum, ekki síst á sviði bættra vinnubragða. Það var enginn slíkur bragur á framgöngu stjórnarliða varðandi þetta mál. Svo ég haldi herlíkingunni áfram var það ekki einu sinni að þau héldu ekki virkinu, þau stunduðu skipulagt undanhald.

Þetta er grafalvarlegt mál og það er vont að þurfa að spyrja, virðulegi forseti: Eru þetta hin nýju vinnubrögð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur?