148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Víða um land liggja vegir undir skemmdum vegna vanrækslu undanfarinna ára í viðhaldi og frekari uppbyggingu; Vatnsnesvegur, Reykjaströnd, Hegranes, Skógarströnd, vegir í Árneshreppi, uppsveitir Borgarfjarðar og svo mætti áfram telja. Styrking stofnleiða og lagning bundins slitlags á tengivegi hefur setið á hakanum. Brýnar stórframkvæmdir, eins og breikkun Vesturlandsvegar frá Kjalarnesi í Borgarnes, hafa vart komist á dagskrá og undirbúningsvinnu er ábótavant. Þetta hefur gerst þrátt fyrir loforð fulltrúa flestra stjórnmálaflokka í aðdraganda undanfarinna alþingiskosninga. Alþingi hefur samþykkt metnaðarlitlar samgönguáætlanir sem svo hefur ekki einu sinni verið staðið við með því að fjármagna framkvæmd þeirra.

Herra forseti. Alþingi og samgönguráðherra verða að taka sig á. Góðar samgöngur eru lífæð byggðanna. Það er ekki tæk flóttaleið eftir áralanga vanrækslu í samgöngubótum að ætla að fjármagna þær með vegtollum á íbúa einstakra svæða, svo sem íbúa á Akranesi og í Borgarfirði. Samgönguráðherrar sem tala fyrir slíku sýna uppgjöf gagnvart því verkefni að tala fyrir og tryggja fjármuni í nauðsynlegar samgöngubætur af þeim tekjustofnum sem þó eru til þeirra markaðir með margvíslegri gjaldtöku, svo sem af eldsneyti, umferð, bílum og fleiri þáttum.

Vakin er athygli á því í nýjasta tölublaði Bændablaðsins í vandaðri og ítarlegri umfjöllun að um 258 milljarða tekjur af umferð undanfarinna fimm ára hafi ekki verið nýttar til vegagerðar. Tekjustofnar og fjármunir eru greinilega fyrir hendi. Alþingi verður því að taka sér tak, og samgönguráðherra, leggjast á árar og fylgja þeim verkefnum eftir sem honum eru falin og ætlað að tala fyrir. Við þurfum aðgerðir strax í vegamálum. Það er alveg augljóst að tekjustofnarnir eru fyrir hendi, fjármunirnir eru fyrir hendi, (Forseti hringir.) fjármunir sem eru innheimtir með ýmsum hætti en skila sér ekki í samgöngubætur, sem þó standa svona illilega upp á okkur.