148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

um fundarstjórn.

[15:39]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Mér fannst eins og áðan væri að koma vinsamleg tilmæli úr herbúðum Sjálfstæðismanna, frá þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins, um hvað stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd mætti gera og hvað hún mætti ekki gera. Hvað umboðsmaður Alþingis mætti gera og hvað mætti ekki gera. Ég vona að ég hafi ekki skilið hann rétt, en það hefði allt eins mátt ráða þetta af orðum hv. þm. Birgis Ármannssonar.

Það sem skiptir máli er að hæstv. dómsmálaráðherra í dag er að benda á ábyrgð þingsins. Ég er ósammála því að því leytinu til að þingið hefur ekki verið upplýst um alla þætti málsins eins og er núna að koma fram. Þess vegna er mikilvægt að þingið, og það er á ábyrgð þingsins, fái svigrúm og tækifæri til þess að fylgja eftir þessum málum í tengslum við dómsmálaráðherra og embættisfærslur hans sem hafa verið dæmdar ólögmætar í Hæstarétti og að hæstv. forseti veiti stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þann stuðning í því að sinna eftirlitsskyldu sinni í þessu stóra og mikilvæga máli sem þarf að upplýsast á forsendu þingsins, ekki á forsendum framkvæmdarvaldsins. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)